Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-158
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ökutæki
- Ábyrgðartrygging
- Vátrygging
- Bifreiðar
- Umferðarlög
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 14. nóvember 2025 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. október sama ár í máli nr. 810/2024: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn ríkislögreglustjóra. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um bætur vegna tjóns á lögreglubifreið sem ekið var á vinstra afturhorn bifreiðar, sem tryggð var lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá leyfisbeiðanda, til að binda enda á eftirför lögreglu og stöðva akstur bifreiðarinnar. Deila aðilar einkum um túlkun þágildandi 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfu gagnaðila að viðbættum frekari röksemdum um að ákvörðun lögreglu um að keyra á bifreiðina hefði markað lok samfelldrar eftirfarar sem hófst nokkru fyrr. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að þegar 89. gr. þágildandi umferðarlaga hefði verið beitt í tilvikum þar sem lögreglumaður hefði ekið lögreglubifreið á aðra bifreið, sem virti ekki boð lögreglu um að staðnæmast, hefði í dómaframkvæmd verið litið til þess hlutverks lögreglu að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu, stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem röskuðu öryggi borgaranna, sem og að stöðva ólögmæta háttsemi, sbr. a-, b- og c-liði 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Af ákvæðum þeirra laga leiddi jafnframt að lögregluaðgerðir sem féllu innan heimilda laganna væru lögmætar og teldust ekki saknæmar. Í málinu lægi fyrir að leyfisbeiðandi vefengdi ekki að aðgerð lögreglu hefði verið réttlætanleg í ljósi aðstæðna og að gætt hefði verið meðalhófs. Héraðsdómur féllst á það með gagnaðila að eiginleg orsök árekstrarins hefði verið ólögmæt háttsemi ökumanns bifreiðarinnar sem skapað hefði þær aðstæður að óhjákvæmilegt var að til árekstrar kæmi. Var háttsemi lögreglumannsins ekki metin honum til sakar að neinu leyti.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi einkum þar sem afleiðingar lögregluaðgerðar eins og um ræði í málinu geti ekki fallið undir 89. gr. eða 91. gr. þágildandi umferðarlaga. Kostnaður af valdbeitingu lögreglu sé hluti rekstrarkostnaðar hennar og greiðist úr ríkissjóði sbr. 33. gr. lögreglulaga. Málið snerti grundvallarspurningar um sakarmat og skiptingu tjóns við árekstur þegar lögregla ákveður að beita valdi til að stöðva bifreið. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði verulega hagsmuni hans og hafi umtalsverðaR afleiðingar fyrir vátryggingamarkaðinn. Í því ljósi vísar hann jafnframt til þess að í málinu sé eigandi bifreiðar látinn bera ábyrgð á kostnaði við lögregluaðgerð þótt hann hafi ekki haft aðkomu að eða vitneskju um aksturinn. Þá telur leyfisbeiðandi að þótt skilyrði um endurkröfu kunni að vera uppfyllt sé ljóst að hún sé afar ólíkleg til að skila fjárhagslegum ábata þegar þjófur valdi tjóni. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og vísar einkum til þess að við mat á sök beri að miða við áreksturinn sjálfan en ekki atburðarásina sem leiddi til hans.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.