Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-153

GF-4 ehf. (Heiðar Ásberg Atlason lögmaður)
gegn
Yabimo ehf. (Gísli Guðni Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Þrotabú
  • Reikningur
  • Heimild dómara til leiðréttingar
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 30. október 2025 leitar GF-4 ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. sama mánaðar í máli nr. 331/2024: Yabimo ehf. gegn Gylfaflöt-2 ehf. og GF-4 ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda og Gylfaflöt-2 ehf. verði óskipt gert að greiða þrotabúi eignarhaldsfélagsins VRG ehf. skuld að fjárhæð 557.770 evrur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Gagnaðili höfðaði málið á hendur leyfisbeiðanda og Gylfaflöt-2 ehf. til hagsbóta fyrir þrotabú eignarhaldsfélagsins VRG ehf. samkvæmt heimild í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila. Með dómi Landsréttar var talið að leyfisbeiðandi ásamt Gylfaflöt-2 ehf. hefðu í reynd skuldbundið sig til að inna af hendi greiðslur til eignarhaldsfélagsins VRG ehf. vegna reikninga sem gagnaðili og Yabimo Services Sp. Z o.o. Sp. K, gáfu út á grundvelli samninga frá apríl 2018. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að greiðsluskylda hvíldi á leyfisbeiðanda og Gylfaflöt-2 ehf. vegna reikninganna en umkrafin fjárhæð var lækkuð, meðal annars með hliðsjón af matsgerð sem lá fyrir í málinu. Leyfisbeiðanda og Gylfaflöt-2 ehf. var óskipt gert að greiða gagnaðila 434.157 evrur. Landsréttur leiðrétti síðar einn lið í forsendum sem og dómsorð dómsins, líkt og nánar er rakið í 6. lið þessarar ákvörðunar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að formi og efni, málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans og úrslit þess hafi verulegt almennt gildi. Málið sé höfðað á grundvelli 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 en dæmt eins og um skaðabótamál væri að ræða. Í dómi Landsréttar sé horft fram hjá megineinkennum hlutafélaga um ábyrgð félagsmanna og munnlegum yfirlýsingum um ábyrgð gefið vægi lagalegra skuldbindinga. Landsréttur fari auk þess langt út af sporinu í dómsorðinu þar sem Yabimo ehf. eru dæmdir hagsmunir málsins sem höfðað hafi verið til hagsbóta þrotabúi eignarhaldsfélagsins VRG ehf. Með þessu hafi Landsréttur brotið alvarlega gegn 111. gr. laga nr. 91/1991.

6. Með bréfi lögmanns gagnaðila 17. nóvember síðastliðinn barst Hæstarétti endurrit af dóminum með leiðréttingum. Í nýju endurriti hefur 67. liður dómsins verið leiðréttur sem og dómsorð á þann veg að leyfisbeiðanda og Gylfaflöt-2 ehf. beri óskipt að greiða þrotabúi eignarhaldsfélagsins VRG ehf. 434.157 evrur.

7. Með bréfi leyfisbeiðanda 18. nóvember 2025 brást hann við nýju endurriti leiðrétts dóms. Hann mótmælir því að leiðrétting dómsorðs geti komið í veg fyrir veitingu áfrýjunarleyfis. Hann telur að leiðréttingin dugi ekki til þess að leiðrétta rökvillur dómsins sem og þá hugsanavillu að forsendur hans feli í sér að málið hafi verið dæmt eins og um skaðabótamál væri að ræða.

8. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að hinn leiðrétti dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.