Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-52
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótaábyrgð
- Líkamstjón
- Varanleg örorka
- Viðmiðunartekjur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 24. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. febrúar sama ár í máli nr. 57/2024: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um hvaða tekjuviðmið beri að leggja til grundvallar við ákvörðun bóta til leyfisbeiðanda vegna slyss sem hann varð fyrir árið 2020. Deilt er um hvort miða skuli við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða hvort meta skuli árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar.
4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um að meta skyldi árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Landsréttur taldi á hinn bóginn að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að svo óvenjulegar aðstæður hefðu verið fyrir hendi að annar mælikvarði væri réttari á líklegar framtíðartekjur hans en lágmarkstekjuviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna, enda yrði ekki talið að hann hefði á slysdegi markað sér svo ákveðinn starfsvettvang hér á landi að víkja bæri frá því. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda
5. Leyfisbeiðandi byggir aðallega á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Leyfisbeiðandi sé með alþjóðleg […]réttindi og hafi starfað sem […]stjórnandi í heimalandi sínu og síðan á Íslandi í tíu mánuði. Meginmarkmið skaðabótalaga sé að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir raunverulegt tjón og byggir leyfisbeiðandi á að farið sé gegn því markmiði verði miðað við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga enda hafi hann haft mun hærri tekjur það tímabil sem hann starfaði hér á landi. Tvö skilyrði séu fyrir því að meta skuli árslaun sérstaklega, annars vegar óvenjulegar aðstæður og hins vegar að árslaunaviðmið sé ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Ljóst sé að ekki sé hægt að bera saman tekjur hans í Póllandi og á Íslandi. Mánaðarlaun á Íslandi árið 2022 hafi verið 668.000 krónur en fyrir sama tímabil hafi laun í Póllandi verið 7.560 slot eða 261.447 krónur. Í málinu séu því uppi óvenjulegar aðstæður og ekki hægt að leggja laun hans í Póllandi til grundvallar niðurstöðu. Leyfisbeiðandi bendir máli sínu til stuðnings á dóm Hæstaréttar 1. nóvember 2023 í máli nr. 17/2023 þar sem tjónþoli var talinn hafa haslað sér völl á sínu starfssviði eftir einungis þrjá mánuði í starfi. Í málinu sé um að ræða sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda fái hann tjón sitt ekki að fullu bætt nema fallist verði á kröfu hans.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.