Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-270

Hagsmunir LTR egf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Sparniði ehf. og Premium ehf. (Einar Páll Tamimi lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Matsgerð
  • Afhending gagna
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 1. október 2019 leita Hagsmunir LTR ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 18. september sama ár í málinu nr. 572/2019: Sparnaður ehf. og Premium ehf. gegn Hagsmunum LTR ehf. Vísar leyfisbeiðandi í því sambandi til 1. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu Sparnaðar ehf. og Premium ehf. hefur verið skilað greinargerð til varnar í málinu.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðilum verði gert skylt að veita dómkvöddum matsmönnum aðgang að nánar tilgreindum gögnum á grundvelli 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. og 3. mgr. 62. gr. sömu laga. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda en með fyrrnefndum úrskurði hafnaði Landsréttur henni. Leitar leyfisbeiðandi kæruleyfis til að fá þeirri niðurstöðu hnekkt.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að leita leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.