Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-95
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skuldamál
- Veðskuldabréf
- Fyrning
- Lagaskil
- Tómlæti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 23. mars 2020 leitar Davíð Hrannar Hafþórsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars 2020 í máli nr. 399/2019: Davíð Hrannar Hafþórsson gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um greiðslu skuldar samkvæmt verðtryggðu veðskuldabréfi sem leyfisbeiðandi varð skuldari að samkvæmt skuldskeytingu. Byggir leyfisbeiðandi á því að krafan sé fyrnd og fallin niður fyrir tómlæti. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi. Í dómi Landsréttar kom fram að 10 ára fyrningarfrestur gilti um kröfu gagnaðila samkvæmt 1. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Krafan hafi því ekki verið fyrnd frá því tímamarki að veðskuldabréfið var gjaldfellt og þar til stefnan var birt. Þá var ekki fallist á að krafan væri fallin niður vegna tómlætis.
Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Í dómi Landsréttar hafi meðal annars verið horft framhjá því hve langur tími hafi liðið án þess að gagnaðili, sem er fjármálafyrirtæki, gerði reka að því að innheimta kröfuna. Þá sé dómurinn ekki í samræmi við dómafordæmi um beitingu frumkvæðisskyldu skuldara. Málið hafi verulegt almennt gildi um skýringu og beitingu ákvæða um tómlæti, auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi né efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.