Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-198

Hagar hf. (Þórður Bogason lögmaður)
gegn
SMI ehf. (Guðmundur Siemsen lögmaður) og Korputorgi ehf. (Stefán A. Svensson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Forkaupsréttur
  • Fasteignakaup
  • Tómlæti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 8. júlí 2020 leita Hagar hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. júní sama ár í málinu nr. 563/2019: Hagar hf. gegn SMI ehf. og Korputorgi ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á því að forkaupsréttur hans að eignarhluta í verslunareiningu, sem hann hefur haft á leigu, hafi orðið virkur þegar kaup tókust um fasteignina á milli gagnaðila með samningi 17. desember 2013. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af þeirri kröfu og var sú niðurstaða staðfest í fyrrgreindum dómi Landsréttar. Þar kemur fram að með tilvitnuðum kaupsamningi hefði komist á bindandi samningur sem leiddi til þess að forkaupsréttur leyfisbeiðanda varð virkur. Aftur á móti taldi dómurinn ljóst af gögnum málsins að fyrirsvarsmönnum leyfisbeiðanda hefði verið kunnugt um það á árinu 2014 að fasteignin hefði verið seld. Þrátt fyrir þetta hefði leyfisbeiðandi ekki haft uppi kröfu um nýtingu forkaupsréttar fyrr en í september 2016, rúmum tveimur árum eftir að hann hefði sannanlega fengið vitneskju um nýjan eiganda fasteignarinnar. Leyfisbeiðandi hefði samkvæmt þessu sýnt af sér slíkt tómlæti við gæslu forkaupsréttar síns að hann væri fallinn niður.

Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins kunni að hafa verulegt almennt gildi um hvort samningsbundinn forkaupsréttur sem virtur hefur verið að vettugi geti fallið niður fyrir tómlæti. Í þessu sambandi vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að ekki hafi reynt á sambærilegt atriði fyrir dómi í gildistíð laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Einnig byggir hann á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, enda fari mest af fjárfestingum leyfisbeiðanda í hinu leigða húsnæði forgörðum ef hann fær ekki viðurkenndan rétt sinn til að kaupa fasteignina og halda þar áfram rekstri. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem dómurinn hafi ekki lagt rétt mat á nokkur lykilatriði í málinu og meðal annars slegið því föstu að gagnaðili, SMI ehf., hafi ekki reynt að leyna hann sölu fasteignarinnar. Auk þess hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til dóms Hæstaréttar 12. júní 1997 í máli nr. 162/1997.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.