Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-50
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Sönnunarbyrði
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 7. febrúar 2020 leita Nordica Inc. og Jón Gerald Sullenberger eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. janúar 2020 í máli nr. 302/2019: Nordica Inc. og Jón Gerald Sullenberger gegn þrotabúi 12.12.2017 ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þrotabú 12.12.2017 ehf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að rift verði þremur greiðslum sem 12.12.2017 ehf., áður Kostur lágvöruverslun ehf., innti af hendi til leyfisbeiðandans Nordica Inc., samtals að fjárhæð 11.715.503 krónur. 12.12.2017 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 15. febrúar 2018 og var frestdagur 20. desember 2017. Voru umþrættar greiðslur greiddar eftir frestdag, eða hinn 10. og 12. janúar 2018, vegna reikninga sem höfðu verið gefnir út í mars og apríl 2017. Leyfisbeiðandinn Jón Gerald var eigandi 12.12.2017 ehf. og átti Nordica Inc ásamt eiginkonu sinni og því óumdeilt að um nákomna aðila var að ræða í merkingu 5. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að rifta ætti umræddum greiðslum og var leyfisbeiðendum gert að greiða gagnaðila þá fjárhæð óskipt, sbr. 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Landsréttar staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, en vísaði til þess að leyfisbeiðendur hefðu ekki sýnt fram á að þeir hefðu ekki vitað eða mátt vita að komin hefði verið fram krafa um gjaldþrotaskipti þegar hinar umdeildu greiðslur voru inntar af hendi, en um það hvíldi sönnunarbyrðin á þeim. Var því fallist á kröfu gagnaðila um riftun samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 og leyfisbeiðendum gert að greiða gagnaðila óskipt umræddar greiðslur samkvæmt 3. mgr. 142. gr. sömu laga. Vísaði rétturinn til þess að leyfisbeiðendur hefðu báðir haft hag af hinum riftanlegu greiðslum, auk þess sem ekki yrði hjá því komist að telja að þær hefðu falið í sér ótilhlýðilega mismunun gagnvart kröfuhöfum á þann hátt að virða yrði leyfisbeiðendum til sakar.
Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins geti haft verulegt almennt gildi, en í dóminum sé fjallað um fjölda atriða. Í fyrsta lagi hvort fyrirsvarsmaður félags sé ávallt grandsamur um framlagða gjaldþrotaskiptabeiðni síðar hafi hann undirritað greiðslusamkomulag fyrir hönd félagsins þar sem fram komi að sé ekki staðið við samkomulagið, sé það vegna eignaleysis félagsins, og að mótaðila sé þá heimilt að leggja fram gjaldþrotaskiptabeiðni. Í öðru lagi hvort þrjár greiðslur, samtals að fjárhæð 11.715.503 krónur, teljist venjulegar í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 þegar velta félags sé rúmlega 1,1 milljarður. Í þriðja lagi hvaða þýðingu tekjuskattsinneign hafi við mat á ógjaldfærni fyrirtækja. Í fjórða lagi undir hvaða kringumstæðum fyrirsvarsmaður sé persónulega ábyrgur fyrir greiðslum sem eru riftanlegar eru samkvæmt lögum nr. 21/1991. Í fimmta lagi hvort viðskiptasamband og viðskiptasaga leyfisbeiðandans Nordica Inc. við 12.12.2017 ehf. skipti máli þegar metið sé hvaða hag Nordica Inc. hafði af hinum riftanlegu ráðstöfunum.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðninni því hafnað.