Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-2
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fyrning
- Veiðiheimildir
- Atvinnuréttindi
- Stjórnarskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 6. janúar 2025 leitar Málsóknarfélag makrílveiðimanna leyfis Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2024 í máli nr. E-6857/2023: Málsóknarfélag makrílveiðimanna gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Í málinu er deilt um hvort löggjafanum hafi verið heimilt að mæla fyrir um úthlutun aflahlutdeildar í makríl til einstakra skipa á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á tímabilinu 2008 til 2018 með þeim afleiðingum að skip félagsmanna fengu minni hlutdeild en ef miðað hefði verið við þrjú bestu veiðitímabil undangenginna sex veiðitímabila samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Leyfisbeiðandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda gagnaðila á tjóni félagsmanna vegna úthlutunarinnar sem var framkvæmd í samræmi við III. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 151/1996, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 46/2019.
4. Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að krafa leyfisbeiðanda væri fyrnd. Málatilbúnaður leyfisbeiðanda yrði skilinn með þeim hætti að verðmæti hvers 0,01% aflahlutar í makríl lægi á bilinu 11 til 15 milljónir króna. Þannig væri um að ræða eingreiðsluverðmæti sem unnt væri að reikna út frá þeirri skerðingu aflahlutdeildar sem leyfisbeiðandi byggði á. Af þessu leiddi að félagsmenn leyfisbeiðanda hefðu getað haft uppi skaðabótakröfur byggðar á eingreiðsluverðmæti strax í kjölfar gildistöku laganna. Upphafstími fyrningar miðaðist því við það tímamark. Að mati dómsins rauf málsókn Félags makrílveiðimanna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 44/2022, ekki fyrningu kröfu stefndanda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi við túlkun á 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007, en ákvæðið taki til allra skaðabótakrafna utan samninga og dómurinn feli í sér nýja og áður óþekkta leið til þess að finna upphafsdag fyrningarfrests. Héraðsdómur byggi á því að upphafstími fyrningarfrests samkvæmt ákvæðinu hafi verið gildistökudagur laga nr. 46/2019, það er 20. júní 2019 eða sama dag og lögin voru birt í Stjórnartíðindum. Í dóminum sé ekki fjallað um hvaða gögn leyfisbeiðanda hafi verið nauðsynleg til að geta höfðað mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Virðist engu máli skipta þótt engin úthlutun hafi átt sér stað á aflaheimildum við gildistöku laganna og engin útgerð búið yfir upplýsingum um hver aflahlutdeild hennar yrði samkvæmt hinum nýju lögum fyrr en fyrsta lagi 8. ágúst 2019. Það hafi svo verið í janúar 2020 að Félag makrílveiðimanna fékk frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu töflureikni sem útbúinn hafði verið af Fiskistofu. Þá fyrst hafi verið unnt að reikna áætlaða úthlutun samkvæmt almennri úthlutunarreglu laga nr. 151/1996 og bera hana saman við þá úthlutun sem fram fór. Málið hafi verið höfðað með birtingu stefnu 18. október 2023 og telur leyfisbeiðandi það hafa verið innan fjögurra ára frá þeim tíma er leyfisbeiðandi fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi fordæmisgildi um meðferð opinbers valds við úthlutun á takmörkuðum gæðum.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi og að skilyrðum 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 fyrir áfrýjun málsins beint til Hæstaréttar sé að öðru leyti fullnægt. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.