Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-124

A (Sævar þór Jónsson lögmaður)
gegn
B (Dögg Pálsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjárslit milli hjóna
  • Opinber skipti
  • Fasteign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 2. júlí 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 19. júní sama ár í máli nr. 303/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita við lok hjúskapar þeirra. Leyfisbeiðandi krefst þess einkum að viðurkennt verði að söluandvirði fasteignar aðila, sem þau bæði voru skráðir eigendur að jöfnum hlut, komi að fullu í hans hlut en til vara önnur og lægri fjárhæð. Þá gerir hann kröfu um að gagnaðila verði gert að endurgreiða honum kostnað sem hann kveðst hafa lagt út vegna fasteignarinnar.

4. Með úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms staðfestur að öðru leyti en því að breyting varð á tímabili er aðilar skyldu bera sameiginlega ábyrgð á rekstrarútgjöldum vegna fasteignarinnar. Í úrskurði Landsréttar var rakið að aðilar hefðu verið í hjúskap í rúmlega fimm ár en áður í sambúð og eignast þá saman eitt barn. Þá hefðu þau keypt fasteign og hún verið skráð eign þeirra að jöfnu og þau talið saman fram til skatts. Yrði því ekki annað ráðið en að með þeim hefði myndast fjárhagsleg samstaða og hjónaband þeirra ekki verið skammvinnt. Því var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um að skiptum á grundvelli 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 yrði beitt um fjárslitin heldur færu þau eftir meginreglu 103. gr. laganna. Einnig var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu kostnaðar vegna fasteignarinnar. Þá var niðurstaða um að nánar tilgreint einkahlutafélag væri 90% hjúskapareign leyfisbeiðanda staðfest og að innbú skyldi sæta helmingaskiptum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að ástæða sé til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni. Á því er byggt að niðurstaða Landsréttar sé í ósamræmi við málsatvik, framsetningu málsins og kröfur. Heldur leyfisbeiðandi því einkum fram að ekki séu efni til að beita helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga við skipti á söluandvirði fasteignar aðila enda sé það bersýnilega ósanngjarnt. Því beri að leggja til grundvallar skáskipti samkvæmt 104. gr. laganna.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.