Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-189

K (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)
gegn
M (Magnús Guðlaugsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjárslit milli hjóna
  • Opinber skipti
  • Lífeyrisréttindi
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 1. október 2018 leitar K leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. september sama ár í málinu nr. 514/2018: K gegn M, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. M leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um að tiltekin lífeyrisréttindi gagnaðila í  séreignarsjóðum og tilteknar skuldir hennar á viðmiðunardegi skuli koma til skipta við fjárslit þeirra vegna hjónaskilnaðar. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði þessum kröfum með úrskurði 8. júní 2018 og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu að öðru leyti en því að skuldir leyfisbeiðanda á tilteknum yfirdráttarreikningum voru taldar falla undir skiptin. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort séreignarlífeyrissparnaður gagnaðila geti talist fela í sér kröfu til lífeyris sem hefur ekki endurkaupsvirði í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið geti haft fordæmisgildi og að niðurstaða Landsréttar í málinu sé bersýnilega röng að formi og efni.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild  3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.