Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-269

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Líkamsárás
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 29. október 2020 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 2. október 2020 í málinu nr. 247/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 2. mgr., sbr. 1. mgr. 218. gr. b. og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ítrekað veist að unnustu sinni með ofbeldi og haft samræði við hana án hennar samþykkis. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í fimm ár auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola skaðabætur.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og uppfylli ekki þær sönnunarkröfur sem hvíli á ákæruvaldinu um sekt ákærða samkvæmt 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Vísar hann einkum til þess að í málinu hafi sönnunarbyrði verið snúið við og hann látinn gjalda þess að vera þroskaskertur. Þá hafi Landsréttur litið fram hjá því að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og gætt að framburði vitna sem bent hafi til sakleysis hans. Loks byggir hann á því að Landsrétti hafi borið að vísa einkaréttakröfu brotaþola frá dómi. Leyfisbeiðandi telur málið hafa almenna þýðingu auk þess að varða grundvallarmannréttindi hans.

Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi. Ákæruvaldið bendir á að niðurstaða Landsréttar í málinu byggi á máti á sönnunargildi framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og vitna. Frásögn brotaþola hafi verið metin trúverðug enda samræmst öðrum gögnum málsins, þar á meðal skýrslu réttarmeinafræðings. Við mat á sönnunargildi framburðar leyfisbeiðanda hafi verið litið til andlegs þroska hans auk þess sem tekið hafi verið mið af því að leyfisbeiðandi og brotaþoli hafi verið undir áhrifum vímuefna mestan hluta þess tímabils sem ákæran tók til. Ákæruvaldið hafnar því að sönnunarbyrði hafi verið snúið við og að leyfisbeiðandi hafi verið látinn gjalda þess að vera þroskaskertur.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og vitna en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.