Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-60

A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)
gegn
B hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sjómaður
  • Uppgjör
  • Skuldajöfnuður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 19. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 49/2023: A gegn B hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um forfallalaun vegna tímabilsins 9. ágúst til 16. október 2016 þegar leyfisbeiðandi var óvinnufær vegna afleiðinga slyss á hægra hné sem hann varð fyrir við störf hjá gagnaðila í júní 2016. Leyfisbeiðandi hafði áður orðið fyrir slysi við störf sín […] desember 2015. Hann lét af störfum hjá gagnaðila í júlí 2017. Við uppgjör vegna starfsloka leyfisbeiðanda lagði gagnaðili til grundvallar að leyfisbeiðandi hefði vegna fyrrgreindra slysa fengið greiðslur umfram það sem hann ætti rétt á samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Leyfisbeiðandi byggði hins vegar á því að ekki væru fyrir hendi skilyrði til skuldajafnaðar með vísan til þess að ætluð ofgreiðsla gagnaðila hefði verið vegna annars óskylds atviks en þess sem dómkrafa hans laut að.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Samkvæmt ráðningarsamningi tók leyfisbeiðandi laun eftir skiptimannakerfi sem fól í sér að hver skipverji fór aðra hverja veiðiferð með skipinu en var hina í fríi og fékk greiddan hálfan hásetahlut hverja veiðiferð skipsins, óháð því hvort að hann væri um borð eða í landi. Landsréttur féllst á að leyfisbeiðandi hefði átt tilkall til greiðslu fulls hásetahlutar í forföllum á tímabilinu sem dómkrafa hans tók til á grundvelli 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga. Landsréttur hafnaði hins vegar að gagnkrafa gagnaðila, sem hann reisti á því að forfallalaun fyrir önnur tímabil hefðu verið ofgreidd, væri fallin niður vegna tómlætis eða fyrningar þar sem talið yrði ljóst að gagnaðili hefði allt frá því að leyfisbeiðandi setti fyrst fram kröfu sína vegna vangreiddra forfallalauna vísað til þess að hann teldi sig hafa ofgreitt forfallalaun og ítrekað þá afstöðu sína í síðari samskiptum. Þá lægi fyrir að gagnkrafan væri samrætt dómkröfu leyfisbeiðanda í málinu en báðar lytu þær að greiðslu forfallalauna. Var talið að gagnaðili hefði ofgreitt forfallalaun umfram dómkröfu leyfisbeiðanda og því fallist á heimild til skuldajafnaðar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómurinn hafi fordæmisgildi um skilyrði og heimild til skuldajafnaðar launakrafna þegar launagreiðandi hefur með uppgjörsháttum sínum brotið gegn lágmarksréttindum launþega. Þá sé dómurinn bersýnilega rangur en hann byggi hvorki á réttarheimildum né gögnum málsins og sé í andstöðu við dómafordæmi Hæstaréttar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.