Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-182
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Hjón
- Kaupmáli
- Opinber skipti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 6. september 2018 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 28. ágúst sama ár í málinu nr. 470/2018: A gegn B, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að farið verði á grundvelli óskráðs kaupmála 13. maí 2002 með allar eignir hans og gagnaðila sem hjúskapareignir við opinber skipti til fjárslita við lok hjúskapar. Héraðsdómur hafnaði kröfunni með úrskurði 18. maí 2018 sem staðfestur var með ofangreindum úrskurði Landsréttar. Ágreiningur aðila lýtur þannig að því hvort skipta beri eignum með öðrum hætti en fram kemur í kaupmála 31. október 2001 sem skráður er í kaupmálabók sýslumanns.
Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að það hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.