Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-44
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnsýsla
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 17. mars 2025 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. febrúar sama ár í máli nr. 846/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðila og krafðist greiðslu bóta þar sem starfsmenn gagnaðila hefðu valdið honum miska og fjárhagslegu tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Hefði starfsmaður gagnaðila haft milligöngu um að leggja fram kæru til lögreglu á hendur leyfisbeiðanda fyrir hönd ætlaðs brotaþola sem þá var 25 ára. Auk þess hefði gagnaðili synjað um afhendingu gagna og eyðingu þeirra og hafnað kröfu hans um afsökunarbeiðni í kjölfar þess að rannsókn málsins var hætt.
4. Héraðsdómur dæmdi gagnaðila til greiðslu skaðabóta. Í dómi Landsréttar kom fram að í barnaverndarlögum nr. 80/2002 væri ekki að finna sérstaka heimild fyrir barnaverndaryfirvöld til að kæra ætluð brot gegn þeim sem ekki væru börn í skilningi laganna. Á hinn bóginn lægi fyrir að ætlaður brotaþoli hefði ekki treyst sér til að kæra málið til lögreglu og fengið aðstoð starfsmanns gagnaðila til þess. Líta yrði svo á að með sendingu kærunnar hefði starfsmaður gagnaðila komið erindi brotaþola í réttan farveg hjá réttum yfirvöldum. Ekki væri unnt að líta svo á að sú háttsemi gæti talist ólögmæt meingerð gegn leyfisbeiðanda í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og yrði miskabótakröfu á þeim grundvelli hafnað. Varðandi áframhaldandi málsmeðferð gagnaðila kom fram að ekki hefði verið stofnað sérstakt barnaverndarmál í tengslum við ætlað brot leyfisbeiðanda og hann ekki verið aðili að slíku máli. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga væri réttur til upplýsinga og aðgangur að gögnum barnaverndarmáls bundinn við aðila þess. Þá hefði leyfisbeiðandi ekki fært fram haldbær rök eða skýringar til stuðnings því að málsmeðferðin hefði falið í sér ólögmæta meingerð gegn honum í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur í málinu geti haft verulegt almennt gildi. Málið varði lögmætisregluna og þá grundvallarreglu að íþyngjandi aðgerðir stjórnvalda gagnvart borgurunum verði að byggjast á viðhlítandi lagaheimild. Í málinu hafi forstöðumaður barnaverndar gagnaðila, í nafni velferðarsviðs, gerst umboðsmaður lögráða einstaklings og lagt fram kæru til lögreglu án þess að heimild væri fyrir því í lögum. Kæran hafi verið rituð á bréfsefni gagnaðila og undirrituð fyrir hönd velferðarsviðs gagnaðila en það hefði verið til þess fallið að ljá henni aukið vægi. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.