Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-203
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Varanleg örorka
- Árslaun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 18. október 2018 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. september sama ár í málinu nr. 112/2018: Vörður tryggingar hf. og B gegn A og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vörður tryggingar hf. og B leggjast gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvaða árslaun skuli leggja til grundvallar útreikningi skaðabóta vegna varanlegrar örorku sem leyfisbeiðandi hlaut í umferðarslysi í febrúar 2012. Leyfisbeiðandi telur að miða beri við árslaun hans óskert á grundvelli meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en gagnaðilar byggja á því að lækka beri viðmiðunartekjur um 30% vegna varanlegrar örorku sem leyfisbeiðandi hlaut í vinnuslysi í desember 2011, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda, en Landsréttur taldi að óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi í skilningi 2. mgr. 7. gr. laganna þar sem geta leyfisbeiðanda til að afla framtíðartekna hefði, með vísan til niðurstöðu örorkumats sem málsaðilar öfluðu sameiginlega, verið varanlega skert um 30% þegar hann varð fyrir umferðarslysinu. Vísar leyfisbeiðandi til þess að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína auk þess sem málið hafi verulegt almennt gildi þar sem ekki hafi reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé efnislega rangur.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa fordæmisgildi um uppgjör bóta fyrir varanlegt líkamstjón í þeim tilvikum þar sem tjónþoli hefur áður orðið fyrir slíku tjóni. Er beiðnin því tekin til greina.