Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-233

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Gunnari Jóhanni Ásgeirssyni (Helgi Jóhannesson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjárdráttur
  • Málshraði
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 12. júlí 2019 leitar Gunnar Jóhann Ásgeirsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. júní sama ár í málinu nr. 433/2018: Ákæruvaldið gegn Gunnari Jóhanni Ásgeirssyni og fleirum, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Leyfisbeiðandi var sakfelldur í Landsrétti fyrir brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í sameiningu með öðrum ákærðu undirritað tilkynningar um eigendaskipti að átta vinnuvélum og ökutækjum sem hafi verið í eigu Slitlags ehf. en með tilkynningunum hafi vélarnar orðið eign Efri Ása ehf. án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir. Leyfisbeiðandi var starfsmaður og stjórnarmaður fyrrgreinda félagsins en stjórnarmaður og prókúruhafi þess síðargreinda. Var ákvörðun refsingar hans frestað skilorðsbundið í eitt ár. Í héraði hafði leyfisbeiðandi verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann til þess að gerður hafi verið verk˗ og kaupsamningur milli fyrrgreindra félaga sem hafi falið í sér að Efri Ásar ehf. tækju að sér að ljúka verki sem Slitlag ehf. hafi haft á hendi gegn því að fá til eignar nánar tilgreindar vinnuvélar og ökutæki. Fyrir liggi gögn í málinu sem sýni fram á að verkið hafi verið unnið. Telur leyfisbeiðandi að ákæruvaldinu hafi því ekki tekist að sanna að ekkert endurgjald hafi komið fyrir vélarnar. Þá hafi staða leyfisbeiðanda ekki verið slík að hann hafi átt að gera sér grein fyrir fjárhagslegri stöðu Efri Ása ehf. eða Slitlags ehf. á þessum tíma. Hafi skilyrði 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga um ásetning til brots því ekki verið fullnægt. Loks telur leyfisbeiðandi að Landsrétti hafi borið að fella málið niður sökum þess hversu lengi það hafi dregist í meðförum ákæruvaldsins.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. og 4. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, annarra ákærðu og vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.