Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-182

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Sveinn Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot í nánu sambandi
  • Börn
  • Heimfærsla
  • Ákæra
  • Sönnun
  • Refsiþynging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 26. nóvember 2025 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 30. október sama ár í máli nr. 590/2024: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot í nánu sambandi gegn fyrrverandi eiginkonu sinni og þremur sonum þeirra vegna háttsemi sem spannaði rúmlega tveggja ára tímabil. Brotin voru talin varða við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en háttsemi leyfisbeiðanda þótti ekki, eins og atvikum var háttað, varða jafnframt við 2. mgr. sama ákvæðis. Leyfisbeiðanda var gert að sæta fangelsi í 18 mánuði en fullnustu 15 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið. Landsréttur taldi brot leyfisbeiðanda hins vegar varða við 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b laganna. Að teknu tilliti til verulegra tafa á meðferð málsins sem leyfisbeiðanda yrði ekki kennt um var refsing hans ákveðin fangelsi í 15 mánuði, en ekki þótti rétt að binda hana skilorði.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu, einkum um túlkun 2. mgr. 218. gr. b laga almennra hegningarlaga. Ólíkar niðurstöður tveggja dómstiga í sama máli bendi til þess að túlkun ákvæðisins sé ekki skýr og því mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar til að tryggja samræmi og fyrirsjáanleika í réttarframkvæmd. Þá hafi málsmeðferð verið stórlega ábótavant í tengslum við útgáfu ákæru og síðar framhaldsákæru. Í þeim efnum er einkum vísað til þess að skilyrði 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið uppfyllt til útgáfu framhaldsákæru. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að verulegir annmarkar hafi verið á sönnunarmati Landsréttar. Ekki hafi verið tekið fullnægjandi tillit til mótsagna í framburði brotaþola eða skorts á hlutlægum sönnunargögnum. Loks telur leyfisbeiðandi mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um ákvörðun refsingar sem hann telur í ósamræmi við dómaframkvæmd.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.