Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-77
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Einkahlutafélag
- Fjártjón
- Hlutafé
- Sérfræðiábyrgð
- Stjórnarmenn
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 16. apríl 2025 leitar Lyfjablóm ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. mars sama ár í máli nr. 338/2023: Lyfjablóm ehf. gegn Birki Kristinssyni, Stefáni Bergssyni, PricewaterhouseCoopers ehf., Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur og til réttargæslu Glitni HoldCo ehf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðilum til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna 46.000.000 króna millifærslu 20. janúar 2005 af bankareikningi leyfisbeiðanda hjá Glitni banka hf. inn á bankareikning Mercatura ehf. hjá sama banka. Byggði leyfisbeiðandi á því að Birkir Kristinsson, Stefán Bergsson, PricewaterhouseCoopers ehf. og Kristinn Björnsson, látinn eiginmaður Sólveigar Guðrúnar Pétursdóttur, sem situr í óskiptu búi eftir hann, hefðu valdið félaginu tjóni, ýmist með aðkomu sinni að millifærslunni sjálfri eða nánar tilgreindum athöfnum eftir að hún var framkvæmd.
4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að stjórn leyfisbeiðanda hefði samhljóða tekið ákvörðun um að kaupa 10% heildarhlutafjár í félaginu af öllum fjórum hluthöfum þess fyrir 1.620.000.000 króna. Samkvæmt gögnum málsins hefði leyfisbeiðandi greitt hluthöfunum fyrir hlutaféð annars vegar með reiðufé, 1.420.000.000 króna, og hins vegar með nánar tilgreindum útistandandi kröfum félagsins, sem námu samtals 200.000.000 króna. Meðal þeirra krafna var skuld Mercatura ehf. við leyfisbeiðanda að fjárhæð 46.000.000 króna. Að þessu gættu var ekki talið að leyfisbeiðandi. hefði sýnt fram á að félagið hefði orðið fyrir tjóni vegna millifærslunnar 20. janúar 2005. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sýknu gagnaðila.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans enda nemi dómkrafan 46.000.000 króna auk vaxta en félagið hafi verið gert eignalaust stuttu eftir fall Gnúps fjárfestingafélags hf. með yfirtöku Glitnis banka hf. á félaginu í ágúst 2008. Því sé um mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða og hinn áfrýjaði dómur feli í sér lokaákvörðun um þau ágreiningsefni sem deilt sé um. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og sé fordæmisgefandi á sviði kröfu- og hlutafélagaréttar sem og um túlkun 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð og samanburðarskýringu við lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Loks telur leyfisbeiðandi að niðurstaða héraðsdóms um að hann hafi ekki orðið fyrir tjóni sé bersýnilega röng. Landsréttur hafi ekki horft heildstætt á málavexti og gögn málsins auk þess sem tilvísanir til vitnisburðar vitnisins Áslaugar Björnsdóttur byggi á misskilningi.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að hvorki sé fullnægt því skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.