Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-66

A (Tryggvi Agnarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lögheimili
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Rannsóknarregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 16. maí 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. apríl sama ár í máli nr. 249/2023: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Málið varðar úrskurð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 9. nóvember 2018, þar sem staðfest var ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 1. ágúst 2018, að synja beiðni leyfisbeiðanda um að fella úr gildi lögheimilisskráningu hans og fjölskyldu hans í […] frá og með 4. janúar 2017. Ágreiningur aðila er um hvort leyfisbeiðandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 9. gr. þágildandi laga nr. 21/1990 um lögheimili þannig hann gæti átt lögheimili á Íslandi þrátt fyrir búsetu í erlendu landi.

4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um sýknu gagnaðila með vísan til forsendna hans. Í héraðsdómi var talið að túlka yrði 9. gr. laga nr. 21/1990 með hliðsjón af meginafmörkun hugtaksins lögheimili í 1. gr. sömu laga. Þá var fallist á með gagnaðila að gera mætti þær kröfur samkvæmt ákvæðinu að fólk sem óskaði beitingar undanþáguheimildar 9. gr. laganna yrði að leggja fram skriflega staðfestingu læknis á því að það væri, veikinda sinna vegna, nauðsynlegt að dvelja í útlöndum. Því var niðurstaða héraðsdóms að Þjóðskrá Íslands hefði verið heimilt að krefjast þess að leyfisbeiðandi legði fram þess háttar staðfestingu um að dvöl hans og fjölskyldunnar í […] væri þeim nauðsynleg vegna veikinda. Þá taldi dómurinn að leyfisbeiðandi hefði hvorki sýnt fram á annmarka á ákvörðun Þjóðskrár Íslands eða úrskurði ráðuneytisins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og svo verulegir ágallar á niðurstöðu réttarins að nauðsynlegt sé að áfrýja dóminum til Hæstaréttar. Leyfisbeiðandi telur það ranga túlkun á 9. gr. laga nr. 21/1990 að gera leyfisbeiðanda að leggja fram staðfestingu með læknisvottorði að honum og fjölskyldu hans hafi verið nauðsynlegt að búa í öðru landi en Íslandi. Engan slíkan áskilnað sé að finna í ákvæðinu. Slík regla hafi fyrst verið lögfest með 11. gr. gildandi laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018. Þess utan hafi leyfisbeiðandi verið veikur vegna örorku sinnar og ekki nauðsynlegt að votta frekar um stöðu hans hvað það varðar. Leyfisbeiðandi leggur sérstaka áherslu á að dómstólar mega aðeins byggja niðurstöðu sína á gildandi rétti þegar atvik máls eiga sér stað. Þá varði niðurstaða málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans og hafi auk þess almennt gildi.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.