Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-106

Ísteka ehf. (Einar Þór Sverrisson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ingvi Snær Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Viðurkenningarmál
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kröfugerð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 10. júlí 2024 leitar Ísteka ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 26. júní sama ár í máli nr. 454/2024: Ísteka ehf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði með dómi að matvælaráðherra hafi verið óheimilt að fella alla starfsemi leyfisbeiðanda tengda blóðnytjum úr fylfullum hryssum hér á landi undir reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að málinu yrði vísað þaðan frá dómi. Landsréttur vísaði til áskilnaðar d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um glögga kröfugerð. Í viðurkenningarmáli eins og því sem leyfisbeiðandi hefði höfðað yrði stefnandi að skilgreina hver þau réttindi væru sem hann krefðist að yrðu viðurkennd. Í kröfugerð leyfisbeiðanda kæmi ekki fram hver „öll starfsemi“ leyfisbeiðanda „tengd blóðnytjum“ væri. Taldi Landsréttur því að leyfisbeiðandi hefði ekki afmarkað með nægjanlega skýrum hætti hver sú starfsemi væri sem hann krefðist viðurkenningardóms um að matvælaráðherra hefði verið óheimilt að fella undir reglugerð nr. 460/2017. Að öðru leyti var vísað til forsendna úrskurðar héraðsdóms.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni. Telur hann í fyrsta lagi að orðalag kröfugerðarinnar sé í fullu samræmi við skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um að vera ákveðin og ljós enda beinlínis í samræmi við ákvörðun matvælaráðherra sem var sérstaklega tilkynnt honum af Matvælastofnun. Í öðru lagi telur leyfisbeiðandi þá niðurstöðu að telja hann ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá afstöðu dómstóla um kröfugerðina bersýnilega ranga. Starfsemi leyfisbeiðanda hafi verið felld undir regluverk sem ekki eigi við um hana, auk þess sem það sé íþyngjandi og setji leyfisbeiðanda skorður. Ekki geti staðist að leyfisbeiðandi þurfi að bíða þess að leyfi hans renni út eða hann brjóti gegn ákvæðum reglugerðar nr. 460/2017 til að fá úr því skorið hvort starfsemi hans falli undir hana. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að kæruleyfið hafi fordæmisgildi um inntak 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.