Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-104

B (Skúli Sveinsson lögmaður)
gegn
A (sjálf)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni
  • Meðdómsmaður
  • Samþykkt

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. maí 2025 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 16. sama mánaðar í máli nr. 76/2025: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Með úrskurði Landsréttar var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað aftur í hérað til löglegrar meðferðar. Málið lýtur að ágreiningi aðila um forsjá sonar þeirra, lögheimili hans, meðlag og umgengi. Héraðsdómur í málinu var skipaður einum embættisdómara og tveimur sérfróðum meðdómendum, geðlækni og sálfræðingi. Í úrskurði Landsréttar var rakið að ótvírætt hefði þurft sérkunnáttu til að taka afstöðu til forsjárhæfni aðila. Ekki hefði þó verið efni til þess að kveðja til tvo sérfróða meðdómendur til setu í dómi í héraði, enda hefði sérkunnátta þeirra beggja lotið að sama atriði, það er forsjárhæfni aðilanna. Þótt yfirmat hefði verið unnið af sálfræðingi og geðlækni hefði ekkert í niðurstöðum þess kallað á þessa skipan dómsins. Hefði hún því verið í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því kæruefnið varði það grundvallaratriði hvort héraðsdómara hafi verið heimilt samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 að kveðja til sálfræðing og geðlækni sem sérfróða meðdómendur, þegar yfirmatsgerð hafi verið unnin af sálfræðingi og geðlækni. Þá varði málið jafnframt þá grundvallarspurningu hvort slík skipan héraðsdóms eigi aðeins að sæta aðfinnslu eða valda ómerkingu. Úrlausn um kæruefnið hafi þannig fordæmisgildi um 2. mgr. 2. gr. laganna sem og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins.

5. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi, sbr. 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.