Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-156

A (Kristinn Hallgrímsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Kjarasamningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 5. nóvember 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. október sama ár í máli nr. 608/2024: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en leggur í mat Hæstaréttar hvort fyrir hendi séu lagaskilyrði til að veita áfrýjunarleyfi.

3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál á hendur gagnaðila vegna líkamsárásar sem hann varð fyrir við störf sín sem heimilislæknir á […] af hálfu einstaklings sem hafði leitað þangað til að fá ávísað lyfjum. Leyfisbeiðandi krafðist þess aðallega að ógilt yrði ákvörðun ríkislögmanns, fyrir hönd ríkissjóðs, 17. nóvember 2022 þar sem hafnað var bótakröfu hans á grundvelli ákvæðis 12.8 í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands. Til vara krafðist hann þess að bótaskylda gagnaðila yrði viðurkennd á grundvelli sama ákvæðis.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur taldi bréf ríkislögmanns ekki geta talist ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var gagnaðili þegar af þeirri ástæðu sýknaður af aðalkröfu leyfisbeiðanda. Þá var gagnaðili einnig sýknaður af varakröfu leyfisbeiðanda á þeim grundvelli að skilyrði ákvæðis 12.8 í fyrrgreindum kjarasamningi hefðu ekki verið uppfyllt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda sé sambærilegt ákvæði að finna í fjölmörgum kjarasamningum og allmargir dómar gengið á undanförnum misserum þar sem fjallað hafi verið um sambærileg álitaefni. Þá hafi fjöldi slíkra tilvika ekki ratað til dómstóla. Áhrif dómsins geti orðið töluverð í ljósi þess að kjarasamningsákvæðum af þessum toga hafi fjölgað. Það hafi verið ætlun lækna sem og annarra launþega að slík ákvæði veittu þeim vernd í tilvikum sem þessum. Málið hafi því einnig samfélagslega þýðingu, meðal annars vegna kjarasamningsviðræðna. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans og dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.