Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-331

A ehf. (Valgeir Kristinsson lögmaður)
gegn
B (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Árslaun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 20. desember 2021 leitar A ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. sama mánaðar í máli nr. 352/2020: A ehf. gegn B á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við störf hjá leyfisbeiðanda á árinu 2010. Með dómi Hæstaréttar 17. desember 2013 í máli nr. 466/2013 var viðurkennd bótaábyrgð leyfisbeiðanda að 2/3 hlutum vegna slyssins. Með fyrrgreindum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að varanlegur miski gagnaðila væri 55 stig og varanleg örorka 70% og að til frádráttar skaðabótakröfu, vegna annarra bóta og greiðslna samkvæmt 2. mgr. 2. gr. og 3. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, skyldi koma áður en sök væri skipt. Þá taldi Landsréttur að efni væru til að meta árslaun gagnaðila sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og þau miðuð við meðallaun verkakarla.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um hvort bætur eða aðrar greiðslur samkvæmt skaðabótalögum skuli koma til frádráttar frá fjárhæð bóta fyrir eða eftir sakarskiptingu. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi og efni til, auk þess sem málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Í þeim efnum vísar hann til þess að niðurstaða Landsréttar hafi byggt á matsgerð dómkvaddra matsmanna sem ekki standist skoðun. Í héraði hafi verið sérfróður meðdómari á sviði lungnasjúkdóma en skort hafi sérfróðan meðdómara á sviði tauga- og heilasjúkdóma vegna ágreinings aðila um heilaskaða gagnaðila. Þá hafi Landsréttur byggt niðurstöðu sína á málsástæðu sem ekki hafi komið fram við meðferð málsins í andstöðu við 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Loks varði málið mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.