Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-107

Sæmundur Jóhannsson og Ester Erlingsdóttir (Guðni Á. Haraldsson lögmaður)
gegn
Birni Þorfinnssyni og Þorgerði Hafsteinsdóttur (Haukur Örn Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Galli
  • Fasteign
  • Tómlæti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 4. júní 2025 leita Sæmundur Jóhannsson og Ester Erlingsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. maí sama ár í máli nr. 28/2024: Sæmundur Jóhannsson og Ester Erlingsdóttir gegn Birni Þorfinnssyni og Þorgerði Hafsteinsdóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Í málinu kröfðust leyfisbeiðendur þess að gagnaðilar greiddu þeim óskipt 32.987.330 krónur vegna ætlaðra galla á nánar tilgreindri fasteign. Fasteignina keyptu þau af gagnaðilum á síðari hluta árs 2008 og tilkynntu fyrst um þá ætluðu vanefnd sem dómkrafan laut að í júní 2022.

4. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Landsrétti kom fram að samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup hefðu leyfisbeiðendur ótvírætt glatað rétti til að bera fyrir sig þá ætluðu vanefnd á kaupsamningi málsaðila sem krafa þeirra lyti að þegar þau tilkynntu um hana 14 árum eftir afhendingu fasteignarinnar. Þá væri ekkert fram komið um að skilyrði 3. mgr. 48. gr. laganna væru uppfyllt, en fyrir því bæru leyfisbeiðendur sönnunarbyrði. Voru gagnaðilar því sýknuð af kröfu leyfisbeiðenda.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið sé fordæmisgefandi um túlkun og samspil 2. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002. Þeir benda á að sams konar lagaákvæði sé að finna í norskum rétti og við skýringu þeirra hafi verið beitt strangara sakarmati en í íslenskum rétti. Þá benda leyfisbeiðendur á að undanfarið hafi borið meira á gallaatvikum sem varði alvarlegar myglu- og rakaskemmdir sem komi í ljós nokkuð löngu eftir afhendingu en eigi rót sína að rekja til vanrækslu við hönnun og á góðum byggingarháttum. Oftar en ekki sé um að ræða alvarlega og kostnaðarsama galla sem kaupendur þurfi að bera ábyrgð á. Þá telja leyfisbeiðendur að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og tilefni til að ómerkja dóm Landsréttar. Að lokum byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra enda hafi málið verið þeim afar kostnaðarsamt og falið í sér mikið tjón. Húsið hafi verið gert fokhelt að nýju, hreinsað af myglu og öll innri einangrun fjarlægð. Heilsa leyfisbeiðenda hafi einnig orðið fyrir beinum áhrifum af því búa í snertingu við myglu.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.