Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-56
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Gagnkrafa
- Galli
- Tafabætur
- Tómlæti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 14. apríl 2023 leita Suðurhús ehf. og Sjöstjarnan ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. mars 2023 í máli nr. 662/2021: Suðurhús ehf. og Sjöstjarnan ehf. gegn Þarfaþingi hf. og gagnsök og THG Arkitektum ehf. til réttargæslu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu á eftirstöðvum samningsfjárhæðar úr hendi leyfisbeiðenda samkvæmt verksamningi milli leyfisbeiðandans Suðurhúsa ehf. og gagnaðila. Leyfisbeiðandinn Sjöstjarnan ehf. tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu 44.874.528 króna af skuld vegna verksamningsins. Þá deila aðilar um greiðslu sem gagnaðili telur sig eiga rétt á fyrir ýmis auka- og viðbótarverk í tengslum við verkið. Gagnaðili gerði fyrir Landsrétti aðallega kröfu um greiðslu 49.764.275 króna úr hendi Suðurhúsa ehf., þar af 44.874.528 krónur óskipt með Sjöstjörnunni ehf., með nánar tilgreindum vöxtum. Leyfisbeiðandi hafði uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar og afmarkar hann beiðni um áfrýjunarleyfi við þá niðurstöðu Landsréttar að gagnkrafa hans vegna tafabóta hafi fallið niður sökum tómlætis.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðendum gert að greiða gagnaðila 36.683.487 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðendum gert að greiða gagnaðila 37.371.743 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Í dómi Landsréttar var rakið að gagnaðili hefði greitt 7.500.000 krónur í tafabætur, þar af 3.000.000 króna 1. júní 2017. Taldi rétturinn að leyfisbeiðandanum Suðurhúsum ehf. hefði borið að tilkynna gagnaðila tafarlaust teldi hann tilefni til að krefja hann um frekari tafabætur. Samkvæmt gögnum málsins var það ekki gert fyrr en í desember 2017. Var niðurstaða Landsréttar sú að leyfisbeiðandi hefði fyrirgert rétti sínum til frekari tafabóta sökum tómlætis.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um tafabætur einkum þegar verktaki hafi samþykkt skyldu til greiðslu þeirra en hlé verði á kröfugerðinni. Þá telja leyfisbeiðendur þá niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga að gagnaðili hafi haft ástæðu til að ætla að hann yrði ekki krafinn um greiðslu tafabóta eftir 1. maí 2017. Loks hafi málsmeðferð verið stórlega ábótavant því ekki hafi verið fjallað með rökstuddum hætti um þá málsástæðu þeirra að hafna bæri öllum kröfum gagnaðila vegna viðbótar- og aukaverka.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.