Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-91

Anna María Jónsdóttir (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
B og C (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ærumeiðingar
  • Friðhelgi einkalífs
  • Ómerking ummæla
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Gagnsök
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. júní 2024 leitar Anna María Jónsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. sama mánaðar í máli nr. 321/2023: Anna María Jónsdóttir gegn B og C og gagnsök. Gagnaðilar taka undir beiðnina og hafa fyrir sitt leyti óskað eftir leyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar, sbr. ákvörðun nr. 2024-101.

3. Ágreiningur málsins varðar kröfu gagnaðila um ómerkingu fimm ummæla sem leyfisbeiðandi, sem er geðlæknir, setti fram í læknisvottorðum, auk krafna um miska- og skaðabætur. Ummælin í vottorðunum lutu aðallega að ætluðu ofbeldi, ógnandi hegðun og hótunum gagnaðila B í garð sonar síns, gagnaðila C, og barnsmóður sinnar D.

4. Héraðsdómur ómerkti þrjú ummæli leyfisbeiðanda og gerði henni að greiða miskabætur til gagnaðila B vegna þeirra en sýknaði hana að öðru leyti. Með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Landsréttur ómerkingu á fyrrgreindum ummælum og greiðslu miskabóta vegna þeirra, auk þess að ein ummæli til viðbótar voru ómerkt af Landsrétti þar sem þau voru talin hafa falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð gagnaðila B. Þá taldi Landsréttur að skýrlega mætti ráða af gögnum málsins að gagnaðilar hefðu mátt þola miklar raunir vegna málsins alls. Allt að einu féllst Landsréttur á með héraðsdómi að skilyrði skorti til þess að leyfisbeiðandi yrði talin bera ábyrgð á 15 mánaða aðskilnaði gagnaðila eða því að móðir gagnaðila C hefði tekið þá ákvörðun að yfirgefa sameiginlegt heimili þeirra 8. júlí 2017.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar sem læknis auk þess sem það snerti mikilvæga hagsmuni allra lækna sem þurfi starfs síns vegna að gera vottorð fyrir skjólstæðinga sína. Auk þess hafi málið almenna þýðingu fyrir önnur dómsmál um aðild barna og mörk tómlætisáhrifa þegar um ræðir miskabótakröfu og kröfu um ómerkingu ummæla. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé rangur meðal annars þar sem krafa um miskabætur hafi verið fallin niður fyrir tómlæti og þar sem gagnaðili B hafi ekki sýnt fram á miska. Enn fremur gerir leyfisbeiðandi athugasemdir við aðild gagnaðila C í málinu fyrir héraðsdómi þar sem forsjá foreldranna hafi verið sameiginleg þegar málið var höfðað.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.