Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-328

B (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
A (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjá
  • Lögheimili
  • Umgengni
  • Samþykkt að hluta

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 16. desember 2021 leitar B leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. nóvember sama ár í málinu nr. 497/2021: A gegn B á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um forsjá, lögheimili og umgengni tveggja barna þeirra. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 8. júlí 2021 var leyfisbeiðanda dæmd forsjá barnanna og gagnaðila gert að greiða henni einfalt meðlag auk þess sem honum var dæmd umgengni við annað barnið en hitt ekki. Í framangreindum dómi Landsréttar var aðilum dæmd sameiginleg forsjá barnanna. Þá var hvorum aðila gert að greiða hinu einfalt meðlag og þeim gert að vinna að því að koma á reglulegri umgengni barnanna við það foreldri sem þau búa ekki hjá.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi. Hún vísar til þess að Landsréttur hafi ekki fylgt þeirri meginreglu barnaréttar að fara eigi að vilja barns um málefni sem það varðar ef sá vilji er ekki beinlínis andstæður hagsmunum þess. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þar sem um sé að ræða lögheimili og forsjá barna hennar. Loks telur hún að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni og vísar meðal annars til þess að ákvæði í dómsorði um umgengni barnanna við það foreldri sem þau búa ekki hjá sé óframkvæmanlegt.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni þá háttar svo almennt til í málum sem varða forsjá barna og skyld málefni þeirra. Hins vegar verður talið að á dómi Landsréttar, að því er varðar niðurstöðu um umgengni barnanna við aðila máls, kunni að vera þeir ágallar að rétt er að samþykkja beiðni um áfrýjun á grundvelli 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. Beiðnin er því samþykkt að því er þetta atriði málsins varðar.