Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-338
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Galli
- Þjónustukaup
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 31. desember 2021 leita Pétur Þór Sigurðsson og Jónína Bjartmarz leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 425/2020: Pétur Þór Sigurðsson og Jónína Bjartmarz gegn ÁÞ-verki ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um skaðabætur vegna tjóns sem þau byggja á að megi rekja til gallaðrar þjónustu sem gagnaðili veitti þeim sem fólst í að skipta um glugga og hurðir í fasteign leyfisbeiðanda. Ágreiningur aðila lýtur meðal annars að því hvort þjónustan hafi verið gölluð í skilningi laga nr. 42/2000 um þjónustukaup auk þess hvort gagnaðila hafi verið veittur kostur á að bæta úr meintum göllum samkvæmt 16. gr. laganna.
4. Með dómi héraðsdóms var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðenda. Í dómi Landsréttar kom fram að frágangur á frauði og kíttun hafi verið ófullnægjandi við gluggakarma og taldist þjónusta gagnaðila að þessu leyti vera gölluð í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 42/2000. Fyrir lá að gagnaðili hvarf frá verkinu í kjölfar ágreinings sem upp kom tilhögun þess. Talið var óumdeilt að hann hefði boðist til að lagfæra þá galla sem fólust í ónægri kíttun. Með því taldi Landsréttur að gagnaðili hefði sinnt úrbótaskyldu sinni samkvæmt 16. gr. laga nr. 42/2000. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til dóms héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um sýknu gagnaðila.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Fái dómur Landsréttar að standa óbreyttur muni það fela í sér stórfellda breytingu frá fyrri dómaframkvæmd um samningssamband neytanda og seljanda þjónustu. Þá telja þau dóm Landsréttar bersýnilega rangan að formi til. Þannig hafi bæði í dómi héraðsdóms og Landsréttar verið farið út fyrir hinar almennu varnir sem gagnaðili byggði á og málsástæðum leyfisbeiðenda svarað sjálfstætt óháð málatilbúnaði gagnaðila. Loks telja þau að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þannig sé meðal annars sönnunarmat dómsins í andstöðu við sönnunarreglur laga nr. 42/2000 og dómaframkvæmd í sambærilegum málum. Þá sé alfarið horft framhjá sönnunargildi matsgerðar í málinu auk þess sem dregnar séu ályktanir og fullyrt um atvik þvert á það sem gögn málsins bera með sér.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.