Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-119

A (Björgvin Þórðarson lögmaður)
gegn
Sjúkratryggingum Íslands (Erla S. Árnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Sjúklingatrygging
  • Fyrning
  • Lyf
  • Matsgerð
  • Lögskýring
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 30. júní 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 5. júní sama ár í máli nr. 528/2023: Sjúkratryggingar Íslands gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 18. apríl 2018 verði felldur úr gildi og gagnaðila gert að greiða honum 12.104.500 krónur.

4. Héraðsdómur féllst á kröfur leyfisbeiðanda en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af þeim. Aðilar deila um hvort heilsutjón leyfisbeiðanda, nýrnabilun á lokastigi, sem dómkvaddir menn töldu og ágreiningslaust var að rekja mætti til langvarandi læknismeðferðar leyfisbeiðanda með lyfinu Litarex, væri bótaskylt samkvæmt 4. tölulið 2. gr. þágildandi laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að niðurstaða dómkvaddra matsmanna hefði verið að allar líkur bentu til þess að nýrnabilun leyfisbeiðanda mætti rekja til notkunar lyfsins Litarex en ekki til skorts á eftirliti. Hvorki í málatilbúnaði leyfisbeiðanda né í héraðsdómi hefði verið fjallað um hvað fælist í þeirri einstaklingsbundnu svörun leyfisbeiðanda við lyfinu sem niðurstaða héraðsdóms hefði verið reist á. Var því lagt til grundvallar að heilsutjón leyfisbeiðanda stafaði af sjaldgæfum en þekktum aukaverkunum lyfsins sem teldust til eiginleika þess. Af því leiddi að 3. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000 stæði því í vegi að unnt væri að fallast á bótaskyldu á grundvelli 4. töluliðar 2. gr. laganna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, einkum þar sem hvorki Landsréttur né Hæstiréttur hafi áður fjallað um mörk 3. mgr. 3. gr. og 4. töluliðar 2. gr. laga nr. 111/2000. Jafnframt sé mikilvægt að fá skýringu Hæstaréttar á lykilhugtökum sem fjalla um álitaefnið en ekki eru skilgreind í lögunum eða lögskýringargögnum. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði verulega hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.