Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-88

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Inga Val Davíðssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Sönnun
  • Málsmeðferð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. maí 2024 leitar Ingi Valur Davíðsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. apríl sama ár í máli nr. 518/2023: Ákæruvaldið gegn Inga Val Davíðssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 6. maí 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við brotaþola án hennar samþykkis. Leyfisbeiðandi var dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar.

4. Leyfisbeiðandi tekur fram að með áfrýjun vilji hann aðallega ná fram ómerkingu dóms Landsréttar en til vara að dóminum verði hnekkt þannig að hann verði sýknaður af ákæru og til þrautavara að refsing verði lækkuð og hún alfarið skilorðsbundin. Leyfisbeiðandi telur að málsmeðferð í Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Fyrir Landsrétti hafi hann gert kröfu um að tvö ný vitni kæmu fyrir réttinn til skýrslugjafar og hafi verið fallist á það með ákvörðun réttarins. Leyfisbeiðandi telur vitnisburðinn hafa grundvallarþýðingu í málinu og hefði átt að að leiða til sýknu hans. Landsréttur hefði að minnsta kosti átt að taka rökstudda afstöðu til framburðar vitnanna sem ekki hafi verið gert. Málsmeðferð Landsréttar sé þannig í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og meginreglu 108. gr. laga nr. 88/2008. Leyfisbeiðandi telur afar brýnt að fá úr því skorið hvaða þýðingu það hafi fyrir hann að Landsréttur hafi látið hjá líða að taka rökstudda afstöðu til framburðar vitna. Að lokum telur hann að framangreint leiði til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

5. Niðurstaða Landsréttar um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar verður að telja að virtum gögnum málsins ástæðu til að ætla að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant, sbr. 3. málsliður 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, þar sem Landsréttur lagði hvorki mat á sönnunargildi munnlegs framburðar þeirra tveggja vitna sem báru vitni fyrir Landsrétti en höfðu ekki komið fyrir héraðsdóm né mat hvernig framburður þeirra samrýmdist framburði ákærða og vitna. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.