Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-132

Knattspyrnufélag Akureyrar (Hannes J. Hafstein lögmaður)
gegn
Arnari Grétarssyni (Heiðar Ásberg Atlason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Greiðsla
  • Orlof
  • Túlkun samnings
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 15. júlí 2025 leitar Knattspyrnufélag Akureyrar leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. júní sama ár í máli nr. 469/2024: Knattspyrnufélag Akureyrar gegn Arnari Grétarssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu krafði gagnaðili leyfisbeiðanda um greiðslu árangurstengdra launa sem hann taldi sig eiga rétt á samkvæmt ráðningarsamningi. Ágreiningur aðila laut að túlkun ákvæðis í samningnum um að gagnaðili fengi 10% af allri þeirri upphæð sem leyfisbeiðandi fengi greitt frá UEFA vegna þátttöku í Evrópukeppni. Leyfisbeiðandi afþakkaði vinnuframlag gagnaðila eftir 17. september 2022. Ágreiningslaust er að samningnum var ekki rift og hann rann sitt skeið 31. október 2022 en gagnaðili fékk greidd laun fram að því. Þá er einnig ágreiningslaust að leyfisbeiðandi fékk alls 850.000 evrur frá UEFA vegna þátttöku sinnar í Sambandsdeild Evrópu árið 2023.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 8.779.998 krónur auk vaxta. Í dómi Landsréttar var fallist á með héraðsdómi að gagnaðili hefði verið þjálfari liðsins samkvæmt ráðningarsamningi þegar liðið vann sér inn þátttökurétt í Evrópukeppninni. Einhliða ákvörðun leyfisbeiðanda um að afþakka vinnuframlag gagnaðila í síðustu fimm leikjum tímabilsins gæti ekki fellt niður rétt gagnaðila til árangursgreiðslu samkvæmt samningnum. Landsréttur taldi að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að leyfisbeiðandi hefði fengið sérstakar greiðslur frá UEFA til að standa straum af ferðakostnaði og ætti gagnaðili því rétt til 10% af þeirri heildarfjárhæð sem leyfisbeiðandi fékk greidda fyrir þátttökuna að frádregnum ferðakostnaði félagsins. Loks var greiðslan talin launagreiðsla og reiknaðist því orlof á hana. Var leyfisbeiðandi því dæmdur til að greiða gagnaðila 9.322.601 krónu ásamt vöxtum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hann er ósammála þeirri niðurstöðu Landsréttar að túlka samningsákvæði aðila með þeim hætti að gagnaðili eigi rétt á greiðslu vegna árangurs sem náðist eftir að samningi aðila lauk og tæpt ár liðið frá því að hann kom að þjálfun liðsins. Þá sé í dóminum ekki leyst úr þeirri málsástæðu leyfisbeiðanda að niðurstaðan sé í andstöðu við þá meginreglu íslensks vinnuréttar að starfsmenn eigi einungis rétt á greiðslum vegna atvika sem megi rekja til eigin vinnuframlags. Leyfisbeiðandi bendir á að þegar samningur aðila rann sitt skeið í lok október 2022 hafi það eina sem var fast í hendi verið þátttökuréttur í fyrstu umferð sambandsdeildar Evrópu sumarið 2023. Gagnaðili hafi ekki átt þátt í þeim árangri sem náðist eftir að fyrstu umferð lauk og hafi sjálfur ákveðið að semja við annað lið í samkeppni við leyfisbeiðanda. Þessi atvik eigi að leiða til þess að 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga verði beitt og ráðningarsamningi aðila vikið til hliðar eða honum breytt. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi verulegt almennt gildi um túlkun ráðningarsamninga og útreikningur Landsréttar fái ekki staðist.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.