Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-216
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fjárhættuspil
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.
Með beiðni 5. nóvember 2018 leitar Guðlaugur Jakob Karlsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. október sama ár í málinu nr. 364/2018: Guðlaugur Jakob Karlsson gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst ekki gegn því að fallist verði á beiðnina.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi íslenska ríkisins vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir og rekja megi til þess að nánar tilgreindum aðilum sé heimilað að reka spilakassa samkvæmt lögum nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands og 73/1994 um söfnunarkassa. Telur leyfisbeiðandi að umrædd lög séu í andstöðu við 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem lagt sé bann við fjárhættuspilum. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði íslenska ríkið af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans þar sem hann hafi glímt við spilafíkn um árabil og tapað háum fjárhæðum vegna þessarar starfsemi. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem ranglega hafi verið byggt á því að að lög nr. 13/1973 og 73/1994 séu sérlög sem gangi framar almennum hegningarlögum. Mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um það álitaefni enda hafi það ekki komið til kasta réttarins áður og hafi málið því jafnframt verulegt almennt gildi.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.