Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-62
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Endurhæfingarlífeyrir
- Stjórnsýsla
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 3. apríl 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars sama ár í máli nr. 143/2024: A gegn Tryggingastofnun ríkisins. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis ekki vera fyrir hendi.
3. Mál þetta lýtur að því hvort leyfisbeiðandi eigi rétt á endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð fyrir tilgreint tímabil. Gagnaðili reisti synjun sína á því að leyfisbeiðandi hefði ekki verið í virkri endurhæfingu á því tímabili sem krafan laut að.
4. Með héraðsdómi var gagnaðili sýknuð af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar voru rakin skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007 til að njóta endurhæfingarlífeyris og tekið fram að hvorki í lögum né lögskýringargögnum væri skilgreint hvað endurhæfing í skilningi ákvæðisins fæli í sér. Þó yrði að ætla að greint væri á milli almennrar læknismeðferðar og annarrar skipulagðrar meðferðar sem hefði það gagngert að leiðarljósi að auka líkur á því að þeir sem glímdu við afleiðingar sjúkdóma og slysa gætu haldið áfram atvinnuþátttöku að endurhæfingu lokinni. Í ljósi gagna málsins þótti eðlilegt að gagnaðili drægi þá ályktun að endurhæfing í skilningi 7. gr. laganna hefði ekki verið hafin á umræddum tíma. Loks var hafnað röksemdum leyfisbeiðanda um að málsmeðferð gagnaðila hefði farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða leiðbeiningar gagnaðila verið ófullnægjandi samkvæmt 7. gr. sömu laga þannig að fella bæri ákvarðanir gagnaðila úr gildi. Var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila.
5. Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun hugtaksins ,,endurhæfing“ í skilningi 7. gr. laga nr. 99/2007. Niðurstaðan geti haft fordæmisgildi fyrir fjölda einstaklinga sem séu í þeirri stöðu að endurhæfing þeirra eftir slys eða sjúkdóm hafi að læknisráði verið í einhvern tíma bundin við hvíld, læknisfræðilegt inngrip og bata eftir slíkar aðgerðir. Túlkun Landsréttar á hugtakinu endurhæfing fái ekki stoð í texta lagaákvæðisins eða lögskýringargögnum. Þá telur leyfisbeiðandi að dómar héraðsdóms og Landsréttar séu bersýnilega rangir. Þar skorti á að rökstutt sé hvers vegna vikið sé frá hefðbundnum sjónarmiðum við túlkun lagaákvæða þannig að litið sé til þýðingar viðkomandi hugtaks á því sviði sem um ræðir. Gögn málsins, vitnisburður og upplýsingar um skilning sérfræðinga í endurhæfingu á hugtakinu beri með sér að hvíld eftir aðgerð, uppvinnsla heimilislæknis, meðferð og rannsókn hjá bæklunarlækni og bið eftir að komast að hjá sjúkraþjálfara séu allt þáttur í endurhæfingu.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.