Hæstiréttur íslands

Nr. 2026-1

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Lúther Ólasyni (Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattalög
  • Virðisaukaskattur
  • Bókhaldsbrot
  • Einkahlutafélag
  • Refsiákvörðun
  • Sekt
  • Vararefsing
  • Dráttur á máli
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 24. nóvember 2025 leitar Lúther Ólason leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 370/2024: Ákæruvaldið gegn Armando Luis Rodriguez, Theódóri Heiðari Þorleifssyni, Lúther Ólasyni og Hermanni Ragnarssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum með því að hafa sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Stapafells ehf. staðið skil á efnislega röngum skattframtölum félagsins nánar tiltekin gjaldár og efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum sama félags vegna nánar tilgreindra uppgjörstímabila. Jafnframt fyrir að hafa rangfært bókhald félagsins vegna sömu rekstrarára. Leyfisbeiðanda var gert að sæta fangelsi í 12 mánuði en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Auk þess var honum gert að greiða 55.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en ella sæta fangelsi í 360 daga. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Á hinn bóginn lagði Landsréttur til grundvallar að af forsendum héraðsdóms yrði ekki annað ráðið en að fallist hefði verið á réttmæti nánar tilgreindra sölureikninga félagsins að fjárhæð 6.500.000 krónur. Við ákvörðun fésektar leyfisbeiðanda var því tekið tillit til þess og honum gert að greiða 51.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en ella sæta fangelsi í 360 daga.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Er um það meðal annars vísað til þess að Landsréttur hafi lagt til grundvallar að greiðslur að fjárhæð 6.500.000 króna hafi verið réttmætar án frekari rökstuðnings, svo sem að hvaða leyti þeir reikningar sem lágu greiðslunum til grundvallar hafi verið frábrugðnir öðrum að forminu til og því ekki tilhæfulausir. Slíkur skortur á rökstuðningi feli í sér formgalla sem að mati leyfisbeiðanda sé svo verulegur að ljóst megi þykja að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni. Þá telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulega almenna þýðingu með hliðsjón af þeim lágmarkskröfum sem gera verði til rökstuðnings niðurstaðna í sambærilegum málum þar sem deilt er um gildi útgefinna og greiddra reikninga.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.