Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-366
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Fjárslit milli hjóna
- Kaupmáli
- Opinber skipti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 18. desember 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í málinu nr. 750/2019: A gegn B, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur aðallega að kröfu leyfisbeiðanda um að kaupmáli sem gerður var 26. nóvember 2012 milli hennar og gagnaðila verði ógiltur og ekki lagður til grundvallar við yfirstandandi fjárskipti þeirra. Til vara gerir hún þá kröfu að ákvæði 1. gr. a. í kaupmálanum verði ógilt. Héraðsdómur hafnaði kröfunni með úrskurði 24. október 2019 sem staðfestur var með framangreindum úrskurði Landsréttar. Var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 74. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 geti hjón ákveðið í kaupmála að tiltekin verðmæti skuli verða séreign þeirra. Með kaupmála leyfisbeiðanda og gagnaðila var meðal annars allur arfur sem gagnaðili hefði eða myndi fá tilkall til undanskilinn hjúskapareign. Var talið að þessi tilgreining væri fullnægjandi með vísan til dóms Hæstaréttar 6. júní 1958 sem birtur er á bls. 486 í dómasafni réttarins það ár.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til varakröfu hennar. Þá telur leyfisbeiðandi að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í því sambandi bendir hún á að 1. gr. a. í kaupmálanum sé ekki í samræmi við tilgreiningarreglu 74. gr. laga nr. 31/1993 þar sem verðmæti þau sem sú grein kaupmálans taki til hafi verið fyrirliggjandi við gerð hans. Arfur sá sem um sé að ræða hafi fallið árið 1966 og því ekkert verið því til fyrirstöðu að tilgreina hann með nákvæmum hætti. Þá telur leyfisbeiðandi að ýmis formskilyrði við vottun og undirskrift aðila á kaupmálann hafi ekki verið uppfyllt, sbr. 80. gr. laga nr. 31/1993, sem og að óheimilt hafi verið að hafa kaupmálann á ensku. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að það hafi fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.