Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-150

Þrotabú Bílaleigu Reykjavíkur ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
Kviku innlendum skuldabréfum (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms
  • Þrotabú
  • Gjaldþrotaskipti
  • Aðildarhæfi
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 16. október 2025 leitar þrotabú Bílaleigu Reykjavíkur ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 484/2025: Kvika innlend skuldabréf gegn þrotabúi Bílaleigu Reykjavíkur ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að viðurkennt verði að krafa sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti á leyfisbeiðanda njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð leyfisbeiðanda fyrir héraðsdómi var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi á þeim grundvelli að gagnaðila skorti aðildarhæfi. Við meðferð málsins í héraði óskaði gagnaðili eftir breytingu á þá leið að Kvika eignastýring hf. fengi stöðu sóknaraðila vegna þess aðila sem fram að því hefði verið tilgreindur sóknaraðili. Leyfisbeiðandi mótmælti beiðni gagnaðila að þessu leyti og taldi ekki unnt að bæta úr annmörkum á aðildarhæfi eftir á.

4. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á frávísunarkröfu leyfisbeiðanda. Lagt var til grundvallar að gagnaðila brysti aðildarhæfi, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 og að ekki væri unnt að bæta úr aðilastöðu fyrir dómi eftir á með nafn- og kennitölubreytingu og uppfærðri kröfulýsingu. Í úrskurði Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að gagnaðila brysti að óbreyttu aðildarhæfi í merkingu fyrrgreindra ákvæða. Hins vegar var talið að bæta mætti úr aðild gagnaðila með því að tilgreina Kviku eignastýringu hf. sem sóknaraðila vegna hans í þingbók og síðan í úrskurði. Var hinn kærði úrskurður því ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar að nýju.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng og að málið hafi fordæmisgildi. Hann tekur undir niðurstöður héraðsdóms og Landsréttar um að gagnaðila skorti aðildarhæfi en telur ekki unnt að bæta úr aðild hans með því að tilgreina Kviku eignastýringu hf. sem aðila málsins undir rekstri þess án samþykkis leyfisbeiðanda. Skortur á aðildarhæfi sé slíkur annmarki að við honum sé ekki unnt að bregðast á annan hátt en með frávísun máls. Engin sérsjónarmið séu fyrir hendi í skuldaskilarétti að þessu leyti.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi eða að öðru leyti sé fullnægt skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.