Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-90

EKO eignir ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Árborg (Torfi Ragnar Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 17. mars 2020 leita EKO eignir ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars sama ár í málinu nr. 26/2019: EKO eignir ehf. gegn Sveitarfélaginu Árborg, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sveitarfélagið Árborg leggst gegn beiðninni.

Mál þetta er sprottið af almennu útboði sem gagnaðili hóf í október 2011. Tvö tilboð bárust í verkið en gagnaðili tók ákvörðun um að hafna þeim báðum. Annar bjóðendanna krafði gagnaðila um skaðabætur þar sem hann taldi að gagnaðila hafi borið skylda til að gera verksamning við sig í kjölfar útboðsins. Á miðju ári 2017 var krafan framseld til leyfisbeiðanda og tók hann við aðild að málinu. Krafan tók til ætlaðs missis hagnaðar vegna áranna 2013 til 2016 en við úrlausn málsins í héraði lágu fyrir matsgerð og yfirmatsgerð. Dómur gekk í málinu í héraði 18. desember 2018. Með honum var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda á þeim grundvelli að hún væri fyrnd, sbr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í því sambandi var litið svo á að stefnandi hafi búið yfir upplýsingum um grundvöll kröfunnar á því tímamarki þegar gagnaðili tók ákvörðun um að hafna öllum tilboðum í verkið. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu tók héraðsdómur til umfjöllunar aðrar málsástæður að baki sýknukröfu gagnaðila. Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var hafnað kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu héraðsdóms þar sem afstaða héraðsdóms til annarra málsástæðna en fyrningar var ekki talin geta leitt til ómerkingar hans. Þá var fallist á með héraðsdómi að allar kröfur á hendur gagnaðila hefðu verið fallnar niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað. Taldi Landsréttur að engin ástæða hefði verið til að miða við að fyrningarfrestur hefði ekki hafist fyrr en eftir lok fyrirhugaðs samningstíma.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt þar sem úrslit málsins hafi verulegt almennt fordæmisgildi varðandi túlkun á 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Að mati leyfisbeiðanda eru það einkum tvö atriði í málinu sem snerta fordæmisgefandi lagatúlkun. Annars vegar hvenær fyrningarfrestur hefjist þegar tjón fellur til á lengra tímabili. Hins vegar hvenær tjónþoli geti með tilliti til sönnunar- og réttarfarsreglna krafist bóta fyrir tjón sem ekki hefur enn fallið til. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem dómurinn hafi skýrt fyrrnefnt ákvæði laga nr. 150/2007 með röngum hætti.

Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess myndu hafa fordæmisgildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er beiðninni því hafnað.