Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-106

Íslenska ríkið (Ingvi Snær Einarsson lögmaður)
gegn
A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Vitni
  • Skýrslugjöf
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 2. júní 2025 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 20. maí sama ár í máli nr. 317/2025: A gegn Sjúkratryggingum Íslands og íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila í kærumáli þessu lýtur að því hvort gagnaðila sé heimilt að leiða bæklunarlækni og lögfræðing fyrir dóm til skýrslugjafar í málinu. Fyrrgreindir sérfræðingar unnu álitsgerð á grundvelli heimildar 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

4. Með úrskurði héraðsdóms var hafnað kröfu gagnaðila um að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar þá tvo sérfræðinga sem unnið höfðu fyrrgreinda álitsgerð. Í úrskurði Landsréttar var rakið að tíðkast hefði að sérfræðingar sem staðið hefðu að álitsgerð á grundvelli 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga kæmu fyrir dóm til að svara spurningum um niðurstöður sínar með sama hætti og dómkvaddir matsmenn. Litið var til þess að við vinnslu álitsgerðarinnar sem kröfugerð gagnaðila væri reist á hefði leyfisbeiðanda ásamt Sjúkratryggingum Íslands verið gefið færi á að gæta hagsmuna sinna með framlagningu viðbótargagna. Að teknu tilliti til þess var talið rétt að veita gagnaðila með lögjöfnun frá 65. gr. laga nr. 91/1991 heimild til að leiða þá sérfræðinga sem að henni hefðu staðið fyrir dóm til skýrslugjafar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi ríkt fordæmisgildi. Það sé mikilvægt að Hæstiréttur skeri úr um misvísandi niðurstöður Landsréttar um sömu eða sambærileg atvik. Í úrskurði Landsréttar 29. apríl 2020 í máli nr. 236/2020 hafi verið fjallað um hvort lækni sem var höfundur álitsgerðar sem aflað var samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga væri heimilt að koma fyrir héraðsdóm og gefa skýrslu. Í forsendum Landsréttar í því máli var vísað til þess að viðkomandi læknir hefði ekki annast sóknaraðila í veikindum og af þeim sökum yrði skýrslugjöf fyrir dómi ekki reist á reglum VIII. kafla laga nr. 91/1991. Þá hefði hann ekki verið dómkvaddur sem matsmaður samkvæmt IX. eða XII. kafla sömu laga. Gegn mótmælum varnaraðila yrði hann ekki leiddur fyrir dóm til skýrslugjafar. Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar sé í máli þessu sé bersýnilega rangur og fyrir liggi að báðir aðilar hafi aflað matsgerðar dómkvaddra manna sem geti gefið skýrslu í málinu með vísan til 65. gr. laga nr. 91/1991. Auk þess hafi leyfisbeiðandi og Sjúkratryggingar Íslands mótmælt því að þeir sérfræðingar sem stóðu að gerð álitsgerðarinnar gæfu skýrslu fyrir dómi.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn í því kunni að hafa fordæmisgildi um skýrslugjöf fyrir dómi vegna álitsgerðar sem aflað er á grundvelli 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.