Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-337
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Útboð
- Opinber innkaup
- Viðurkenningarkrafa
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 29. desember 2021 leita Hornsteinar arkitektar ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 635/2020: Hafnarfjarðarkaupstaður gegn Hornsteinum arkitektum ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna missis hagnaðar sem hann taldi sig eiga að njóta hefði ekki komið til ákvörðunar gagnaðila um að ganga ekki til samninga við hann um hönnun og ráðgjöf vegna fyrirhugaðrar byggingar grunnskóla að undangengnu lokuðu útboði í verkið. Deila málsaðila lýtur meðal annars að því hvort tilboðum í fyrrgreint verk hafi verið hafnað og hvort gagnaðila hafi verið heimilt að hætta við verkið vegna verulegs forsendubrests í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.
4. Með dómi héraðsdóms var bótaskylda gagnaðila viðurkennd. Í dómi Landsréttar var komist að gagnstæðri niðurstöðu. Þar var rakið þágildandi ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar sem meðal annars kom fram að kaupandi teldist hafa hafnað tilboði hafi gildistími þess verið liðinn án þess að óskað hafi verið eftir framlengingu þess. Gildistími tilboða í verkið hefði verið átta vikur frá skilum þeirra og því hefðu þau runnið út 10. mars 2009. Landsréttur taldi að með því að gildistími tilboðs leyfisbeiðanda hafi verið liðinn án þess að óskað hefði verið eftir framlengingu þess yrði í samræmi við fyrrgreint ákvæði laga nr. 84/2007 litið svo á að tilboðinu hefði verið hafnað. Þá þótti gagnaðili hafa sýnt fram á að forsendur fyrir byggingu skólans hefðu brostið og hann því haft málefnalegar ástæður fyrir því að ganga ekki til samninga við leyfisbeiðanda um verkið. Gagnaðili var því sýknaður af kröfunni.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið sé fordæmisgefandi og varði mikilvæga hagsmuni sína. Í því efni vísar hann meðal annars til þess að ekki hafi áður reynt í réttarframkvæmd Hæstaréttar á 74. gr. laga nr. 84/2007 eða hliðstætt ákvæði í 83. gr. núgildandi laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Mikilvægt sé að Hæstiréttur fjalli um efnislegt inntak umræddra lagaákvæða enda kunni niðurstaðan að hafa áhrif á framkvæmd opinberra útboða og innbyrðis stöðu kaupanda og bjóðanda. Jafnframt vísar leyfisbeiðandi til þess að í samskiptum aðila á árunum 2008 til 2017 hafi aldrei komið fram að öllum tilboðum hafi verið hafnað. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísar hann meðal annars til þess að ótækt sé að miða við að gagnaðili hafi verið óbundinn af tilboði leyfisbeiðanda eftir 10. mars 2009 í ljósi hinna fjölþættu samskipta aðila eftir það tímamark.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.