Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-135

Óshæð ehf., Gísli Rúnar Böðvarsson, Ívar Sigurjón Helgason og Kristrún Kristmundsdóttir (Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður)
gegn
Auði Kristínu Þorgeirsdóttur og Jóni Viðari Stefánssyni (Finnur Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skipulag
  • Byggingarleyfi
  • Brottflutningur mannvirkis
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.

Með beiðni 17. apríl 2019 leita Óshæð ehf., Gísli Rúnar Böðvarsson, Ívar Sigurjón Helgason og Kristrún Kristmundsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í málinu nr. 569/2018: Auður Kristín Þorgeirsdóttir og Jón Viðar Stefánsson gegn Óshæð ehf., Gísla Rúnari Böðvarssyni, Ívari Sigurjóni Helgasyni og Kristrúnu Kristmundsdóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auður Kristín Þorgeirsdóttir og Jón Viðar Stefánsson leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfum gagnaðila um að leyfisbeiðendum verði gert að fjarlægja grjóthleðslur á lóðarmörkum fasteigna gagnaðila og leyfisbeiðendanna Gísla, Ívars og Kristrúnar að viðlögðum dagsektum. Reisa gagnaðilar kröfu sína einkum á því að grjóthleðslurnar séu í andstöðu við skipulagsskilmála, samþykktar teikningar og byggingarleyfi varðandi fasteignir þessara leyfisbeiðenda. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðendur af kröfum gagnaðila en Landsréttur tók þær á hinn bóginn til greina með fyrrnefndum dómi.

Leyfisbeiðendur byggja á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Vísa þau meðal annars til þess að dómurinn sé ekki til þess fallinn að leysa úr þeim ágreiningi sem uppi sé þar sem kröfur gagnaðila snúi einungis að því að fjarlægja umræddar grjóthleðslur. Þær lúti á hinn bóginn í engu að frágangi lóðarmarka að öðru leyti þannig að unnt verði að koma þeim í lögmætt horf en fyrir liggi að lóð gagnaðila standi tölvuvert lægra en gert sé ráð fyrir í skipulagsskilmálum. Séu kröfur gagnaðila ekki dómtækar af þessum sökum. Þá hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant þar sem þörf hafi verið á sérkunnáttu í málinu og hefði því borið að kveðja til sérfróðan meðdómsmann, sbr. 2. gr. a. laga nr. 91/1991. Telja leyfisbeiðendur jafnframt að málið hafi verulegt almennt gildi um túlkun á ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og efni skipulagsskilmála sem taki til stærra svæðis. Loks byggja þau á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur réttarins sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.