Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-120

A (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fæðingarorlof
  • EES-samningurinn
  • Skaðabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 1. júlí 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní sama ár í máli nr. E-6483/2024: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að skaðabótakröfu leyfisbeiðanda vegna þess tjóns sem hún telur sig hafa orðið fyrir sökum þess að reglur á grundvelli EES-samningsins um rétt til fæðingarorlofs hafi ekki verið réttilega innleiddar í íslenskan rétt.

4. Héraðsdómur tók fram að til að gagnaðili verði skaðabótaskyldur vegna brota á skuldbindingum sínum samkvæmt EES-rétti þurfi þrjú skilyrði að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi verði að felast í EES-reglunni að viðkomandi öðlist tiltekin réttindi og ákvæði hennar beri með sér hver þau réttindi séu. Í öðru lagi þurfi að vera um alvarlega vanrækslu á skuldbindingum ríkisins að ræða og í þriðja lagi þurfi að vera orsakasamband milli vanrækslu ríkisins og þess tjóns sem viðkomandi varð fyrir. Héraðsdómur taldi að skilyrði um alvarlega vanrækslu á skuldbindingum gagnaðila væri ekki fyrir hendi eins og EFTA-dómstóllinn hefði skýrt það í dómaframkvæmd. Var gagnaðili því sýknaður.

5. Leyfisbeiðandi telur brýnt að niðurstaða málsins verði endurmetin á æðra dómstigi enda hafi niðurstaða þess þýðingu og fordæmisgildi fyrir fjölda einstaklinga í sömu stöðu.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá eru ekki fyrir hendi í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðanda er því samþykkt.