Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-127
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Viðurkenningarkrafa
- Frávísun
- Lögvarðir hagsmunir
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 9. júlí 2025 leita Isavia ohf. og Isavia ANS ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 26. júní sama ár í máli nr. 377/2025: Icelandair ehf. gegn Isavia ohf og Isavia ANS ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu gagnaðila þess efnis að viðurkennd verði með dómi óskipt skaðabótaábyrgð leyfisbeiðenda á því tjóni sem leiddi af verkfallsaðgerðum flugumferðarstjóra í starfi hjá leyfisbeiðandanum Isavia ANS ehf., dótturfélagi Isavia ohf., eins og þær voru framkvæmdar dagana 12., 14. og 18. desember 2023 í samræmi við ákvæði samkomulags leyfisbeiðanda Isavia ohf. og félags íslenskra flugumferðarstjóra 17. janúar 2020. Með því skuldbatt félag íslenskra flugumferðarstjóra sig til þess að grípa ekki til vinnustöðvana eða annarra aðgerða sem raskað gætu þjónustu vegna flugleiðsögu á Norður-Atlantshafi fyrir flug sem ekki hefði viðkomu á Íslandi.
4. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2025 var fallist á kröfu leyfisbeiðenda um frávísun málsins. Í úrskurði Landsréttar var hins vegar komist að gagnstæðri niðurstöðu og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Landsréttur taldi að leyfisbeiðendum væri kleift að taka til varna í málinu og að málatilbúnaður gagnaðila fullnægði áskilnaði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Einnig var málatilbúnaðurinn talinn uppfylla skilyrði 2. mgr. 25. gr. sömu laga um lögvarða hagsmuni.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Telja leyfisbeiðendur að í úrskurði Landsréttar hafi verið gerðar umtalsvert vægari kröfur til viðurkenningarkröfu gagnaðila en leiði af réttarframkvæmd. Þá telja þeir að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins í heild og að niðurstaða héraðsdóms um frávísun hafi verið skilmerkilega rökstudd og í samræmi við réttarframkvæmd. Þá skorti rökstuðning í niðurstöðu Landsréttar og látið við það sitja að fullyrða að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Loks gera leyfisbeiðendur athugasemdir við þá niðurstöðu Landsréttar að gagnaðili geti enn lagt fram frekari gögn um tjón sitt, eftir atvikum með öflun matsgerðar dómkvadds manns, en gagnaframlagning sé nú þegar umfangsmikil auk þess sem gagnaðili hafi í engu tilgreint hver ætluð frekari gögn ættu að vera.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.