Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-97

EW Deliverires Ltd. (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
Þrotabúi Ingvars Jónadabs Karlssonar (Guðjón Ármann Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Sértökuréttur
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. apríl 2021 leitar EW Deliveries Ltd. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 26. mars sama ár í málinu nr. 120/2021: EW Deliveries Ltd. gegn þrotabúi Ingvars Jónadabs Karlssonar á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðila verði gert að afhenda sér 50% hlutafjár í Skeifunni ehf. á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991. Eignarrétt sinn að hlutafénu leiðir leyfisbeiðandi af samningi við Margréti Stefánsdóttur frá 4. nóvember 2014. Þrotabúið fékk hlutaféð í sínar vörslur með aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 20. september 2017 á hendur Margréti að gengnum dómi Hæstaréttar 15. júní 2017 í máli nr. 527/2016 þar sem rift var ýmsum ráðstöfunum Ingvars Jónadabs Karlssonar á eignum til Margrétar sem gerðar höfðu verið að séreign hennar með kaupmála árið 2009. Samkvæmt samningi leyfisbeiðanda og Margrétar átti félagið að greiða kaupverð fyrir hlutaféð með tiltekinni upphafsgreiðslu að fjárhæð 250.000 krónur en greiðslu að fjárhæð 199.750.000 krónur var að öðru leyti frestað með fyrirvara um að fullnægt yrði áskilnaði um áreiðanleikakönnun. Ef slíkri könnun yrði ekki fullnægt innan eðlilegs tíma skyldi lokaendurgjaldið vera 20.000.000 króna. Leyfisbeiðandi byggir á að samningurinn hafi verið undirritaður af báðum aðilum 4. nóvember 2014 en hann var ekki vottaður um rétta undirritun og dagsetningu.

4. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að hvorki hefðu verið lögð fram gögn sem sýndu að leyfisbeiðandi hefði innt af hendi greiðslu kaupverðs samkvæmt samningnum né að félagið hefði komið fram sem eigandi hlutafjárins fyrr en í fyrsta lagi með tilkynningu 2. júní 2016 til hins hlutafjáreigandans í Skeifunni ehf. sem einnig var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins en þá hafði ráðstöfun hlutafjárins til Margrétar þegar verið rift með dómi héraðsdóms. Á hinn bóginn lægju fyrir gögn í málinu sem sýndu að Margrét og hinn eigandi hlutafjár í Skeifunni ehf. hefðu litið á hana sem eiganda þess eftir að leyfisbeiðandi kvaðst hafa keypt það 4. nóvember 2014. Loks var litið til þess að ekkert hefði legið fyrir um að leyfisbeiðandi hefði byggt rétt sinn til hlutafjárins á fyrrnefndum samningi fyrr en með kröfulýsingu 11. júní 2018 til skiptastjóra gagnaðila. Var því talið að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist sönnun um eignarrétt sinn að hlutafénu og var kröfu hans hafnað.

5. Leyfisbeiðandi vísar til þess að í forsendum úrskurðar héraðsdóms hafi héraðsdómari lýst almennri skoðun sinni á riftunarþolum og lagt hana til grundvallar. Telur leyfisbeiðandi að kæruefnið varði mikilvæga almannahagsmuni um að unnt sé að bera mál undir dómstóla og hljóta þar úrlausn hlutlauss dómara sem skoði hvert einstakt mál út frá atvikum þess hverju sinni uns þau teljist upplýst en lýsi ekki almennu viðhorfi til almennings eða einstakra hópa. Þá telur leyfisbeiðandi að kæruefnið hafi fordæmisgildi um sönnunarreglur í gjaldþrotaskiptum, um reglur einkahlutafélaga og um meginreglur kröfuréttar um stofnun kröfuréttinda. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng þar sem úrskurðurinn byggi meðal annars á afbrigðilegu sönnunarmati um sértökukröfur samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 þar sem sönnunarbyrði sé lögð á kröfulýsanda að sýna ekki einungis nægilega fram á eignarrétt sinn, eins og dómaframkvæmd staðfestir að sé nægilegt nema þrotabúið sýni fram á hið gagnstæða, heldur beri kröfulýsanda jafnframt að sanna að hann hafi ekki verið í slagtogi með þrotamanni að reyna að koma undan eignum með málamyndagerningi.

6. 6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.