Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-151
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Landamerki
- Jörð
- Sönnun
- Eignarréttur
- Þinglýsing
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 23. október 2025 leitar Hreggviður Hermannsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 25. september sama ár í máli nr. 507/2024: Ragnar Valur Björgvinsson gegn Hreggviði Hermannssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili, eigandi Langholts 2 í Flóahreppi, höfðaði mál á hendur leyfisbeiðanda, eiganda Langholts 1, til viðurkenningar á að mörk jarða þeirra lægju með tilgreindum hætti eftir makaskipti á spildum úr landi hvorrar jarðar um sig árið 1987. Í þinglýstu afsali um spildu til eiganda Langholts 2 var vísað til afmörkunar hennar með bláum lit á uppdrætti en í þinglýstu afsali um spildu til eiganda Langholts 1 var vísað til sams konar afmörkunar hennar en með rauðum lit. Í sama skjalahylki og samrit afsalanna var varðveitt hjá sýslumanninum á Suðurlandi var að finna uppdrátt þar sem færðar höfðu verið inn bláar og rauðar línur. Þá var í færslu þinglýsingadómara árið 1987 á spjöld í þinglýsingabók getið um að Langholt 1 hefði fengið 4.900 fermetra í landi Langholts 2 en færslan var ekki tekin upp við tölvuskráningu þinglýsingabókar. Leyfisbeiðandi krefst sýknu af kröfum gagnaðila og byggir á því að uppdrátturinn hnekki ekki færslu í þinglýsingabókum og samræmist ekki því sem fram komi í afsali. Þá telur hann uppdráttinn falsaðan og hafi honum verið komið fyrir í skjalahylkinu löngu eftir makaskiptin.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður. Landsréttur féllst hins vegar á aðalkröfu gagnaðila. Landsréttur vísaði til þess að uppdrátturinn hefði verið í sama skjalahylki og samrit afsalanna hjá sýslumanni og að sú staðreynd veitti sterkar líkur fyrir því að um væri að ræða uppdráttinn sem afsölin vísuðu til. Jafnframt var talið að skráning á stærð lóðar á spjöld þinglýsingabókar hefði átt sér stað fyrir mistök þegar efni afsals fyrir henni hefði verið fært þar inn enda bæri þinglýsingabók ekki lengur með sér stærð rauðmerktu spildunnar. Þá hefði leyfisbeiðandi ekki lagt fram uppdrátt eða haldbær sönnunargögn um hvar mörk spildnanna ættu að liggja teldist uppdrátturinn hjá sýslumanni rangur. Meðal annars af þessum sökum var leyfisbeiðandi ekki talinn hafa fært sönnur á að hinn umdeildi uppdráttur væri ekki sá sem afsölin 1987 vísuðu til og að hann yrði að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Að þeirri niðurstöðu fenginni, og þar sem leyfisbeiðandi hefði ekki hreyft andmælum við því að kröfulína samkvæmt aðalkröfu gagnaðila væri í samræmi við uppdráttinn hjá sýslumanni, tók Landsréttur til greina aðalkröfu hans.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem hann víki frá áralangri dómaframkvæmd Hæstaréttar um 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 vegna þýðingar opinberra skjala og þær sönnunarkröfur sem gerðar eru til þeirra sem vilja hnekkja þeim. Þá hafi efni einkaréttarlegs löggernings verið hnekkt með svo veikum sönnunargögnum að um slíkt finnist ekki dæmi í dómaframkvæmd. Leyfisbeiðandi telur Landsrétt hafa gert leyfisbeiðanda að sanna að opinbert vottorð væri rétt og að þinglýsingadómari hafi ekki gert mistök vegna uppdráttar sem héraðsdómari mat svo ótrúverðugan að hann gæti ekki hafa verið hluti af makaskiptum á landi árið 1987. Jafnframt byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar hafi almenna þýðingu. Í fyrsta lagi breyti hann áratugalangri dómaframkvæmd og í öðru lagi sé hætt við að dómurinn kunni að setja fordæmi sem skapi óþolandi réttaróvissu um þýðingu opinberra skjala. Loks hafi verið dæmt í málinu með öðrum hætti en í sambærilegum málum.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.