Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-69

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Zophoníasi Eggertssyni (Haukur Örn Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 13. desember 2018 leitar Zophonías Eggertsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja fyrir sitt leyti dómi Landsréttar 16. nóvember sama ár í málinu nr. 66/2018: Ákæruvaldið gegn Zophoníasi Eggertssyni og fleirum, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjaness um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á þáverandi heimili sínu og einnar ákærðu haft í vörslum sínum, ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni, samtals 11.024 grömm af kannabisefnum, sem lögregla hafi fundið við húsleit hjá þeim, en þau hafi móttekið tösku sem hafi innihaldið fíkniefnin frá öðrum ákærða og varðveitt þau samkvæmt beiðni hans. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Telur leyfisbeiðandi að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Byggir hann á því að borið hafi að vísa málinu frá héraðsdómi þar sem hann hafi fyrir útgáfu ákæru fengið bréf frá ríkissaksóknara um niðurfellingu málsins og hann því þurft að sæta málsókn vegna sömu atvika öðru sinni. Brjóti sú málsmeðferð í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt hafi orðið verulegur dráttur á að leyfisbeiðandi fengi afhent öll gögn málsins við meðferð þess í héraði. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið hafi verulega almenna þýðingu og dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og annarra ákærðu, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.