Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-246
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Handveð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 26. nóvember 2018 leitar þrotabú Novus fjárfestingafélags ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 13. sama mánaðar í málinu nr. 729/2018: Þrotabú Novus fjárfestingafélags ehf. gegn Landsbankanum hf. á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort Landsbankinn hf. hafi öðlast veðrétt í eignarhlut leyfisbeiðanda í nánar tilgreindu skuldabréfi á grundvelli handveðsyfirlýsingar. Þá lýtur ágreiningur þeirra einnig að umfangi veðréttar. Héraðsdómur Reykjavíkur tók til greina kröfu Landsbankans hf. um að viðurkenndur yrði veðréttur hans í eignarhlut leyfisbeiðanda í skuldabréfinu fyrir 228.000 bandaríkjadölum. Staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum úrskurði.
Beiðni sinni til stuðnings vísar leyfisbeiðandi til þess að niðurstaða úrskurðar Landsréttar og rökstuðningur fyrir henni feli í sér breytingu á viðteknum sjónarmiðum í veðrétti, enda sé þar byggt á því að unnt sé að breyta efni veðskjals með dómi lánastofnun í hag. Telur leyfisbeiðandi niðurstöðu þessa máls því hafa verulegt fordæmisgildi á sviði veðréttar og um umfang handveðréttinda þegar ágreiningur verður um efni veðsamnings. Þá hafi úrskurðurinn grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins að þessu leyti. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til því veðsamningurinn kveði á um að veðsettir séu fjármálagerningar að fjárhæð 228.000 krónur en ekki 228.000 bandaríkjadalir.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrlausn um kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram fyrri dómsúrlausnir þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.