Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-196
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Fyrning
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 3. júní 2019 leita A, B og dánarbú C eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. maí sama ár í málinu nr. 596/2018: D gegn A, B og dánarbúi C, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. D leggst gegn beiðninni.
Gagnaðili höfðaði mál þetta í desember 2015 og krafði leyfisbeiðendur um skaðabætur að fjárhæð 29.488.000 krónur vegna sölu þeirra á tiltekinni landspildu 18. desember 2008, en gagnaðili taldi hana hafa tilheyrt sér að ⅔ hlutum. Dómur gekk í málinu í héraði 16. júlí 2018. Með honum var lið í kröfu gagnaðila að fjárhæð 10.000.000 krónur vísað frá dómi en að öðru leyti voru leyfisbeiðendur sýknuð af kröfunni á þeim grundvelli að hún væri fyrnd, sbr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í því sambandi var litið svo á að gagnaðila hafi ekki síðar en 25. júlí 2009 mátt vera ljós þau atvik sem hann teldi leiða til skaðabótaskyldu leyfisbeiðenda við sig en á þeim degi hafi hann höfðað mál gegn einu þeirra til viðurkenningar á eignarrétti sínum að hluta af annarri landspildu sem eins hafi verið ástatt um, sbr. dóm Hæstaréttar 3. apríl 2014 í því máli sem var nr. 87/2010. Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðendum á hinn bóginn gert að greiða gagnaðila 19.488.000 krónur. Þar var byggt á því að fyrningarfrestur kröfu gagnaðila hafi ekki byrjað að líða fyrr en við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 26. janúar 2012 í máli nr. 84/2011 þar sem hafnað var kröfu tveggja leyfisbeiðenda um ógildingu ráðstöfunar sem leiddi af sér eignarheimild gagnaðila að spildunni. Krafa gagnaðila um skaðabætur hafi því ekki verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað.
Leyfisbeiðendur telja að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi með því að það varði hvernig afmarka eigi upphaf fyrningarfrests samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Í öðru lagi telja leyfisbeiðendur að um þetta atriði sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til. Í þriðja lagi varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda og vísa þau í því sambandi til fjárhæðar kröfu gagnaðila.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um afmörkun fyrningarfrests krafna um skaðabætur utan samninga. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.