Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-155

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • Skaðabótaábyrgð
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Vátrygging
  • Ábyrgðartrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 5. nóvember 2025 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. október sama ár í máli nr. 565/2024: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu Sjóvár-Almennra trygginga hf. úr frjálsri ábyrgðartryggingu B hf. vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir 14. ágúst 2020 við þrif á færibandi við aðgerðarlínu í frystihúsi.

4. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfur gagnaðila en leyfisbeiðandi hafði verið sýknaður í héraði. Landsréttur lagði til grundvallar að gagnaðili hefði ekki haft reynslu af því að þrífa færibandið áður en slysið varð. Einnig var talið að þrátt fyrir að henni hefði verið kynnt áhættugreining fyrir frystihúsið hefði þar ekki sérstaklega verið vikið að þrifum á færiböndum. Enn fremur taldi rétturinn að ekkert lægi fyrir um að gagnaðili hefði fengið viðunandi leiðbeiningar um það verk sem hún átti að sinna 14. ágúst 2020 en á vinnuveitanda hennar hefði hvílt skylda til að annast það. Þá var lagt til grundvallar að slysahætta af umræddri aðgerðarlínu hefði verið umtalsvert meiri við það verklag sem viðhaft var við þrifin og að fyrirsvarsmenn B hf. hefðu mátt reikna með því að starfsmönnum gæti verið hætta búin af því að þrífa færibandið á meðan það væri í gangi. Því var fallist á með gagnaðila að verklagið hefði haft í för með sér hættu sem unnt hefði verið að afstýra án mikilla vandkvæða og því slegið föstu að hið óforsvaranlega vinnulag hefði verið orsök þess að hún slasaðist á fingri.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir skaðabótamál þar sem reyni á túlkun og beitingu laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum um tilvik sem varða mörk ábyrgðar vinnuveitanda og starfsmanns og um leiðbeiningarskyldu vinnuveitanda. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að niðurstaða Landsréttar sé á skjön við dómaframkvæmd Landsréttar og Hæstaréttar í sambærilegum málum og því mikilvægt að Hæstiréttur taki málið fyrir og gefi skýrt fordæmi um lágmarkskröfur sem gera verði til sönnunar um orsakatengsl í málum af þessu tagi sem og um mörk ábyrgðar vinnuveitanda og starfsmanns. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á að málið varði verulega hagsmuni sína þar sem félagið greiði árlega háar bætur úr ábyrgðartryggingum atvinnureksturs og málið sé fordæmisgefandi á því sviði. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að þær kröfur sem komi fram í dómi Landsréttar um að hver og einn áhættuþáttur í rekstri sé sérstaklega áhættumetinn fyrir fram feli í sér afar víðtæka og ósanngjarna kröfu gagnvart vinnuveitanda. Þær ströngu kröfur hafi í för með sér breytingu á forsendum fyrir áhættumati vátryggingafélaga fyrir ábyrgðartryggingar atvinnureksturs. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.