Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-100
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Útboð
- Opinber innkaup
- Verksamningur
- Kærufrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 8. júlí 2022 leitar Ísorka ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 745/2021: Ísorka ehf. gegn Orku náttúrunnar ohf. og Reykjavíkurborg á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili Orka náttúrunnar ohf. leggst gegn beiðninni. Gagnaðili Reykjavíkurborg telur ekki fullnægt skilyrðum fyrir veitingu áfrýjunarleyfis en vill þó taka fram að þeir hagsmunir, sem málið lýtur að, kunni að vera þess eðlis að rétt sé að Hæstiréttur fjalli um þá og skeri endanlega úr um sakarefni málsins.
3. Umhverfis- og skipulagssvið gagnaðila Reykjavíkurborgar óskaði 4. júlí 2020 eftir tilboðum í uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla á stæðum víðs vegar um Reykjavík. Hinn 2. október sama ár tilkynnti sveitarfélagið að ákveðið hefði verið að taka tilboði lægstbjóðanda, gagnaðila Orku náttúrunnar ohf., í öllum hlutum útboðsins og að kominn væri á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs gagnaðilans. Leyfisbeiðandi kærði niðurstöðu útboðsins 8. október 2020 til kærunefndar útboðsmála sem með úrskurði 11. júní 2020 í máli nr. 44/2020 lýsti samninginn frá 2. október óvirkan frá uppkvaðningu úrskurðarins. Auk þess var meðal annars lagt fyrir gagnaðila Reykjavíkurborg að bjóða út að nýju uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla í Reykjavík. Í kjölfarið höfðaði gagnaðili Orka náttúrunnar ohf. mál þetta þar sem þess var krafist að framangreindur úrskurður kærunefndar útboðsmála yrði ógiltur.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á framangreinda kröfu gagnaðila Orku náttúrunnar ohf. um ógildingu úrskurðarins. Landsréttur rakti að leyfisbeiðandi hefði breytt kröfugerð sinni fyrir kærunefndinni 8. febrúar 2021 þegar fjórir mánuðir voru liðnir frá því að hann setti fram upprunalega kröfugerð sína í kæru 8. október 2020. Gerði leyfisbeiðandi þá fyrst kröfu um að samningurinn yrði lýstur óvirkur. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að frestur leyfisbeiðanda samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup til að setja fram kröfu um óvirkni samningsins hefði verið liðinn 8. febrúar 2021. Kærunefndinni hefði því verið óheimilt að taka þá kröfu til meðferðar. Þar sem niðurstaða kærunefndarinnar hefði verið að taka kröfuna til greina væri slíkur annmarki á málsmeðferð hennar að óhjákvæmilegt væri að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um ógildingu úrskurðarins.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að í málinu reyni á hvort og að hvaða marki kærunefnd útboðsmála skuli teljast bundin af málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni eins og máli er upphaflega markaður farvegur. Niðurstaða Hæstaréttar um þetta hefði bersýnilega almennt gildi, ekki einungis varðandi meðferð mála fyrir kærunefnd útboðsmála heldur einnig í víðara samhengi þegar rekstur stjórnsýslumála er annars vegar. Jafnframt hafi fordæmisgildi túlkun á kærufresti 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 og túlkun hugtaksins sérleyfissamningur í skilningi laganna og reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína í ljósi þess að hann telji að brotið hafi verið á sér við opinber innkaup sem varði hann miklu fjárhagslega. Loks telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan, þar á meðal að virtum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.