Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-124

Jón Halldórsson (Árni Ármann Árnason lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattur
  • Fjármagnstekjuskattur
  • Hlutabréf
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 4. apríl 2019 leitar Jón Halldórsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. mars sama ár í málinu nr. 577/2018: Íslenska ríkið gegn Jóni Halldórssyni og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldur verði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar þar sem kveðið var á um hækkun á stofni til útreiknings á fjármagnstekjuskatti hans á gjaldárinu 2008 um 467.000.000 krónur. Þá krefst leyfisbeiðandi þess að gagnaðila verði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð sem hann hafi greitt í kjölfar endurákvörðunar á opinberum gjöldum sínum. Snýr ágreiningur aðila einkum að því hvort leyfisbeiðanda hafi verið heimilt að draga tap af sölu hlutabréfa sinna í AB 47 ehf. til Byggingamiðstöðvarinnar ehf., sem var að öllu leyti í hans eigu, frá hagnaði af sölu annarra hlutabréfa á árinu 2007 við útreikning á stofni til greiðslu fjármagnstekjuskatts fyrir gjaldárið 2008. Héraðsdómur Reykjavíkur tók kröfur leyfisbeiðanda til greina. Landsréttur taldi á hinn bóginn að sala hlutabréfanna hafi verið sýndarviðskipti sem skattyfirvöldum hafi verið rétt að horfa fram hjá með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 hafi ranglega verið lögð til grundvallar við úrlausn málsins í stað þess að beita 2. mgr. greinarinnar sem hann telur eiga við um framangreinda ráðstöfun. Geti málið haft fordæmisgildi um skýringu þessara lagaákvæða. Þá telur leyfisbeiðandi málið varða mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.